Ósamræmi á milli loforða og stefnu

Formaður Samfylkingarinnar á Alþingi í kvöld.
Formaður Samfylkingarinnar á Alþingi í kvöld. mbl.is/Kristinn

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir mikils ósamræmis gæta þegar borin eru saman kosningaloforð stjórnarflokkanna og nýr stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar.

„Það er sjálfsögð kurteisi að óska nýskipaðri ríkisstjórn velfarnaðar í starfi og vona að störf hennar verði þjóðinni til heilla,“ sagði Logi við upphaf ræðu sinnar á Alþingi í kvöld. Að því sögðu tók Logi fram að hann vildi halda því til haga að hverjum væri í sjálfvald sett hvernig hann svo efni loforð sín. 

„Stórfelld uppbygging heilbrigðis- og menntakerfisins, viðamiklar kerfisbreytingar, þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-viðræður, breytingar á stjórnarskrá eru allt mál sem virðast finna sér nýjan og óvæntan farveg í stjórnarsamstarfinu,“ sagði Logi. Flokkarnir hafi lofað þessum málum fyrir kosningar en þau sé ekki að finna í sáttmálanum.

Sagði hann miður að ekki væri hægt að „skila atkvæði, jafnvel þótt leiddur hafi verið til valda forsætisráðherra sem sat á mikilvægri skýrslu um gríðarleg undanskot Íslendinga til aflandseyja,“ sagði Logi.  

Unga fólkið dýrmætasta auðlindin

Þá segir hann varasamt að tala um þjóðina eins og eina manneskju enda búi fólk við ólík kjör og vísitölur og meðaltöl segi því aðeins litla sögu. „Á Íslandi búa yfir 6.000 börn við fátækt, kjör öryrkja eru óviðunandi og aldraðir verða margir að neita sér um læknisþjónustu sökum fjárskorts,“ sagði Logi.

Telur hann stefnu ríkisstjórnarinnar boða aukinn ójöfnuð og auður og völd í samfélaginu færist á færri hendur. Ísland sé ríkt land og hér séu aðstæður til að skapa samfélag fyrir alla.

„Nú þurfum við að horfa til langrar framtíðar.  Huga að málefnum almenns launafólks, ekki síst ungu fólki,“ sagði Logi, en unga fólkið sé einmitt dýrmætasta auðlind þjóðarinnar. Segir hann stjórnarsáttmálann ekki gera húsnæðismál að forgangsatriði og uppbyggingu leigumarkaðsins til lengri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert