Gætu haft formennsku í öllum fastanefndum

Ráðherrar ríkisstjórnar hlýða á stefnuræðu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.
Ráðherrar ríkisstjórnar hlýða á stefnuræðu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útlit er fyrir að allar átta fastanefndir Alþingis verði undir formennsku stjórnarliða. Þetta segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, í samtali við mbl.is. Alls hafa fjórar nefndanna lokið fyrstu fundum sínum nú fyrir hádegi, en hinar fjórar munu funda á morgun.

Birgir segir að leitað hafi verið samkomulags við stjórnarandstöðuna um formennsku í nefndunum átta.

„Stjórnarflokkarnir teygðu sig mjög langt til stjórnarandstöðunnar um helgina, en þeim líkaði ekki hvernig við sáum þetta fyrir okkur, svo það varð ekki úr þetta heildarsamkomulag.

Það sem hins vegar stóð eftir, og við héldum alveg fram að nefndarfundum í morgun, að við vorum ekki fyrirfram búin að ákveða framboð í tvö embætti formanns, tvö embætti 1. varaformanns og tvö embætti 2. varaformanns, í mismunandi nefndum.“

Samkomulag náðst um alþjóðanefndir

Bætir Birgir við að stjórnarandstaðan hafi verið meðvituð um þetta um nokkurt skeið, að umrædd embætti stæðu henni til boða þó ekki hefði verið mótað heildarsamkomulag.

„Á þeim nefndarfundum sem ég hef heyrt af til þessa, þá hafa þau ekki kosið að taka að sér formennsku eða varaformennsku í nefndunum, og lýst því yfir að það sé vegna vonbrigða með tilboð stjórnarinnar.“

Þá segir hann rétt að halda því til haga að samkomulag hafi náðst um skipan formanna í átta alþjóðanefndum þingsins, þar sem hlutur stjórnarandstöðunnar verði meiri en tíðkast hafi til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert