Ólafi heimilt að fá niðurstöðu dómstóla

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í gær að Ólafi Ólafssyni fjárfesti væri heimilt að bera ákvörðun endurupptökunefndar undir dómstóla, en áður hafði nefndin hafnað endurupptökubeiðni um þátt hans í Al Thani-málinu.

Þó að í lögum um endurupptökunefnd standi að ákvarðanir hennar séu endanlegar og að þeim verði ekki skotið til dómstóla segir í úrskurði héraðsdóms að Hæstiréttur hafi áður staðfest að endurupptökunefnd heyrði undir framkvæmdavaldið og þar af leiðandi væri hægt að kæra niðurstöður nefndarinnar.

Mál Ólafs verður að þessum sökum tekið til efnislegrar umfjöllunar fyrir héraðsdómi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Ólafi.

Ríkislögmaður fór í málinu fram á frávísun þess með vísun í lög um endurupptökunefnd, en sem fyrr segir taldi dómurinn að með vísan í fyrri dóma Hæstaréttar og stjórnarskrána að ekki væri hægt að undanskilja ákvörðun endurupptökunefndar frá endurskoðunarvaldi dómstóla.

„Stjórnvöld eiga að bregðast við og leiðrétta alvarleg mistök í réttarkerfinu, líkt og þau sem gerð voru við meðferð Al Thani-málsins. Og þótt hafa megi á því ákveðinn skilning að sumir hverjir séu orðnir þreyttir á málarekstri vegna rannsókna og dómsmála síðustu ára, þá tel ég mikilvægt að berjast fyrir því að fólk njóti sannmælis og réttlátrar málsmeðferðar. Réttindi fólks verður að tryggja,“ er haft eftir Ólafi í tilkynningunni.

Í málinu fór Ólafur einnig fram á að viðurkennt yrði að skilyrði fyrir endurupptöku Al Thani-málsins væru uppfyllt, en héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu á þeirri forsendu að þar með væru dómstólar að taka ákvörðun sem endurupptökunefnd hefði verið falið. Dómstólar gætu þó metið hvort ákvarðanir nefndarinnar væru í samræmi við ákvæði laga.

Héraðsdómur Reykjavíkur er til húsa við Austurstræti 19.
Héraðsdómur Reykjavíkur er til húsa við Austurstræti 19. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Málareksturinn á hendur Ólafi Ólafssyni, auk þriggja annarra; Hreiðars Más Sigurðssonar, Sigurðar Einarssonar og Magnúsar Guðmundssonar, hófst með ákæru og málshöfðun embættis sérstaks saksóknara um miðjan febrúar 2012. Í febrúar 2015 var Ólafur sakfelldur í Hæstarétti fyrir hlutdeild í markaðsmisnotkun, en sýknaður af sakargiftum um hlutdeild í umboðssvikum og um hylmingu og peningaþvætti. Hefur Ólafur haldið fram sakleysi sínu og talið að fyrir Hæstarétti hafi sönnunargögn verið rangt metin og tveir dómarar í málinu verið vanhæfir til setu í dómnum.

Í kærunni, sem héraðsdómur tekur nú til meðferðar, er úrskurður endurupptökunefndar varðandi þessar málsástæður sagður rangur og nefndarmaður, sem í nefndina kom eftir að tveir aðrir höfðu sagt sig úr henni, hafi einnig verið vanhæfur til setu í henni. Þá hefur málsmeðferðin verið kærð til Mannréttindadómstóls Evrópu sem skoðar hana með tilliti til mögulegra mannréttindabrota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert