Samið í kjaradeilu flugþjóna og flugfreyja

Verkfalli hefur verið aflýst.
Verkfalli hefur verið aflýst. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Samningar náðust í kjaradeilu flugþjóna og flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands á tólfta tímanum í kvöld og hefur verkfalli sem hefjast átti í fyrramálið klukkan sex verið aflýst. Kjarasamningur fer í kynningu til félagsmanna og greidd verða atkvæði um hann fljótlega.

„Þetta er mjög ánægjulegt að hafa náð samningi og aflýsa fyrirhuguðu verkfalli,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, við mbl.is.  

Samningaviðræður höfðu staðið yfir í húsakynnum ríkissáttasemjara sleitulaust frá klukkan 13 í dag og voru engar vísbendingar um hvort samningar næðust fyrir verkfall eða ekki. Voru farþegar sem áttu flug á morgun látnir vita í dag að hugsanlega myndi allt flug Flugfélags Íslands liggja niðri á morgun vegna verkfallsins.

Starfsmenn hjá Flugfélagi Íslands í Flugfreyjufélagi Íslands hafa verið án kjarasamnings síðan á gamlársdag 2015 og hafa félagsmenn í tvígang fellt samninga í atkvæðagreiðslu eftir að samninganefnd félagsins hefur náð samningum við Flugfélag Ísland og Samtök atvinnulífisins.

Í síðustu viku samþykkti meirihluti félagsmanna í Flugfreyjufélaginu að boða til þriggja daga verkfalls sem hefjast átti á morgun. Þá átti ótímabundið verkfall að hefjast 6. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert