Fjárlögin mjög þensluhvetjandi

Í fjárlögum er ekki veitt nauðsynlegu fé til þess að …
Í fjárlögum er ekki veitt nauðsynlegu fé til þess að tryggja viðunandi ástand í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum, að mati ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óumdeilt er að fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 2017 eru þensluhvetjandi, að mati ASÍ. Þegar rýnt sé í þróun tekna og útgjalda sé alveg ljóst að þessi staða er tilkomin annars vegar vegna mjög þensluhvetjandi aðgerða á tekjuhlið fjárlaga á meðan ekki er veitt nauðsynlegu fé til þess að tryggja viðunandi ástand í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum. Nægir þar að nefna húsnæðismál og öldrunarþjónustu. 

Þetta segir í pistli á vef Alþýðusambands Íslands, ASÍ. 

Þar segir að mikil lækkun skatta tekju- og efnameiri heimila og fyrirtækja, ásamt því sem miklum fjármunum var beint til þeirra efnameiri í gegnum skuldalækkunaraðgerðir fyrrverandi ríkisstjórnar, valdi aukinni þenslu í hagkerfinu á sama tíma  og dregið er úr getu ríkisins til þess að standa undir viðunandi velferð.

„Hafi stjórnvöld og atvinnurekendur raunverulegan áhuga á því að þoka umræðu um nýtt vinnumarkaðslíkan áfram verður að eiga sér stað breyting á þessari forgangsröðun,“ segir í pistlinum. „Síðasta ríkisstjórn skildi eftir sig opna deilu við verkalýðshreyfinguna um nauðsynlegt jafnvægi milli félagslegs- og efnahagslegs stöðugleika. ASÍ og BSRB höfnuðu á þeim grunni að skipa fulltrúa í þjóðahagsráð og situr þar því enginn fulltrúi launafólks. Ný ríkisstjórn getur stigið inn í þessa deilu með markvissum hætti og lagt upp í samtal við vinnumarkaðinn um breyttar áherslur í nýrri ríkisfjármálaáætlun, þar sem velferðin er sett í forgang.“

Alþýðusambandið segist reiðubúið í slíkt samtal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert