Rekstrarmódel fjölmiðla víða brostið

Gunnar Smári Egilsson.
Gunnar Smári Egilsson. mbl.is/Eggert

Fréttatíminn hefur stofnað félag sem heitir Frjáls fjölmiðlun en þar er óskað eftir hóflegu framlagi almennings til að halda blaðinu úti. Fram kemur á heimasíðu Fréttatímans að sala auglýsinga standi undir prentun og dreifingu en standi hins vegar ekki straum af kostnaði við ristjórn blaðsins.

Frjáls fjölmiðlun

Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri og útgefandi Fréttatímans, segir að með því að kaupa sem samsvarar einum kaffibolla á mánuði sé verið að borga sinn hlut í blaðinu og 10 annarra heimila. Blaðið verði þó ekki áskriftarblað en því verður áfram dreift í 80 þúsund eintökum á föstudögum og laugardögum.  

Ekki bara vandamál á Íslandi

„Rekstrarmódel fjölmiðla víða í okkar heimshluta, og ekki síst á Íslandi, hefur brostið. Það er liðin tíð að hægt sé að reka fjölmiðla í almannaþjónustu af markaðstekjum, auglýsingatekjum og áskriftartekjum. Þetta vandamál er ekki bara á Íslandi, heldur úti um heim allan,“ segir Gunnar Smári í samtali við mbl.is þegar hann er spurður að því hvers vegna Fréttatíminn hafi ákveðið að fara þessa leið.

Gunnar Smári tók við sem útgefandi og ritstjóri Fréttatímans fyrir rúmlega ári síðan og frá þeim tíma hefur fyrirtækið fótað sig áfram hvernig best sé að standa að útgáfu og afla tekna. „Niðurstaðan er sú að markaðurinn dregur þig góðan part að leiðinni en ekki alla leið,“ segir Gunnar Smári og bendir á að vegna erfiðari rekstraraðstæðna séu blöð mörg hver veikari en þau voru áður.

Sérhagsmunaaðilar á bakvið fjölmiðla

Þetta kannast fólk við á þessari öld, eins og til að mynda á Morgunblaðinu en ég býst við því að það hafi verið talsvert fleiri blaðamenn að vinna þar fyrir 10-20 árum en í dag. Við könnumst einnig við niðurskurð á ritstjórnum 365 og víðar. Það eru viðbrögð við því að markaðurinn sem áður gat fært einkafyrirtækjum það afl að þeir gátu staðið í almannaþjónustu hann gerir það ekki lengur. Þá er hægt að gefa út hálfgildingsblað, sem er að þykjast vera það sem fjölmiðlum tókst að vera hér á árum áður.

Hann segir annan kost að leita til þeirra sem hafa hag af því að standa að uppbyggingu fjölmiðla. Stærstur hluti sem varið hefur verið til uppbyggingar fjölmiðla frá Hruni hefur komið frá sérhagsmunaaðilum; aðilum sem hafa ríkan hag af því að umræðan fari í tiltekna átt:

Skýrustu dæmin um það eru á Morgunblaðið en þá er ég ekki að segja að allt sem Morgunblaðið gerir sé ekki almannaþjónusta. Fjölmiðlar geta verið í eigu sérhagsmunaaðila og veitt almannaþjónustu að miklu leyti.

Frjáls og óháða blaðamennska er lykillinn

Gunnar Smári segir að Frjáls fjölmiðlun verði ný vídd inn í rekstur Fréttatímans. Leitað sé eftir stuðningi almennings og þó hlutfallslega litlir peningar komi þaðan þá verður það raunverulegur eigandi. 

Markmið okkar hluthafanna er ekki að byggja upp verðmætan eignahlut, við sættum okkur við að mara í núllinu. Með því að draga almenning inn erum við svolítið að færa okkur frá gömlu hugmyndinni um að markaðurinn geti staðið undir rekstri sem  almannaþjónusta byggir á. Við erum að þreifa fyrir okkur í því hvernig þetta fyrirkomulag getur orðið í framtíðinni og við teljum að frjáls og óháð blaðamennska sé lykillinn að því að hér geti orðið kröftugt og öflugt samfélag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert