Vilja leyfa dýrin í strætó í eitt ár

Dýr eru ekki leyfð í strætisvögnum Strætó. Starfshópur sem vann …
Dýr eru ekki leyfð í strætisvögnum Strætó. Starfshópur sem vann greiningu á því hvort leyfa eigi gæludýr í strætó hefur mælt með því við stjórn Strætó að það verði leyft í eitt ár. mbl.is/Gunnar Dofri

Það hefur engin viðbótar áhrif á þá sem eru með hunda- eða kattaofnæmi verði gæludýrum leyft að ferðast með strætó. Þetta er meðal þess sem kemur fram í kynningu Hallgerðar Hauksdóttur formanns Dýraverndarsambands Íslands, á málþingi um gæludýrahald sem haldið verður síðdegis í dag.

Sérstakur starfshópur var skipaður á vegum stjórnar Strætó bs. síðasta sumar, sem fékk það hlutverk að vinna greiningu á því hvort leyfa eigi gæludýr í strætisvögnum á Íslandi. Greiningarvinnan leiddi margt athyglisvert í ljós að sögn Hallgerðar.

Leyft vandkvæðalaust í nágrannalöndunum

„Það sem kom mér mest á óvart í niðurstöðunum er að gæludýr eru leyfð í almenningssamgöngum í öllum þeim löndum sem að við skoðuðum,“ segir Hallgerður og nefnir þar sem dæmi Norðurlöndin, Þýskaland og Bretland. Fyrirspurnir voru sendar á forsvarsmenn helstu strætisvagna- og lestafyrirtækja í þeim löndum sem skoðuð voru og undantekningalítið fengust þau svör að ekkert hefði komið upp á.  „Þannig  að það er bara kominn tími til að skoða þetta hér.“

Frétt mbl.is: Vilja taka gæludýrin með í strætisvagna

Í starfshópinum voru fulltrúar frá farþegaþjónustu,vagnstjórum og þvottastöð Strætó, Hollvinasamtökum Strætó, Kattavinafélagi Íslands og Hundaræktarfélagi Íslands, frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Dýraverndarsambandi Íslands og frá Félagi ábyrgra hundaeigenda.  

„Þetta var mjög stór hópur og við skoðuðum íslenskt lagaumhverfi og hvernig málum er háttað erlendis,“ segir Hallgerður. Hópurinn hafi þannig skoðað hvaða vandkvæði gætu komið upp og hvernig væri hægt að leysa þau. „Þetta var skoðað frá öllum hliðum.“  

40% heimila með gæludýr

Hallgerður bætir við að ekki sé eingöngu um að ræða hvort leyfa eigi hunda í strætó, heldur öll þau gæludýr sem lögleg séu á Íslandi,. Um 40% íslenskra heimila eru með gæludýr og getur verið mjög hamlandi fyrir þá sem ekki eiga bíl að geta ekki farið með dýr sín í strætó, til að mynda til dýralæknis.

Spurð hvort einhverjir hafi haft áhyggjur af því að leyfa dýr í strætó, segir hún vagnstjóra hafa vakið spurn á því hvort dýrunum fylgdi álag fyrir bílstjóra og þá hafi astma- og ofnæmissamtökin haft efasemdir um áhrifin á sitt fólk. Vinna starfshópsins gefi hins vegar til kynna að ekkert bendi til að þessum nýju farþegum myndu fylgja aukin ofnæmisviðbrögð.

Ofnæmisvakinn þegar í vagninum

„Það var skoðað ofan í kjölinn. Það eru enginn þekkt tilfelli um dauðsföll af völdum hunda- eða kattaofnæmis,“ segir Hallgerður. „Í raun eru ofnæmisvakarnir nú þegar fyrir hendi í strætó. Þannig að  sá sem er með ofnæmi finnur fyrir jafn miklum ofnæmiseinkennum af manneskju sem á hund eða kött og kemur í strætó eins og af dýrinu sjálfu,“ útskýrir hún. Eina undantekningin á þessu væri ef viðkomandi væri ofan í dýrinu. „Þannig að raun væri þetta ekki aukin ofnæmisvaki.“

 Niðurstaða starfshópsins hafi því verið að benda á mögulega útfærslu, sem fælist í því að dýrin ferðuðust alltaf aftast í vagninum. Þá væru  fremstu sætaraðir í hverjum vagni fráteknar fyrir fólk með ofnæmi og að þar ættu þeir sem eigi dýr ekki að setjast.  

„Hópurinn kom því með tillögu til stjórnar Strætó um að reyna þetta í eitt ár í tilraunaskyni og við bíðum spennt eftir svari frá Strætó,“ sagði Hallgerður.

Málþing um gæludýr er haldið í húsakynnum Dýraverndarsambandsins á Grensásvegi 12A milli kl. 17-19 í dag. Það er öllum opið.   

mbl.is