„Býður upp á hörmuleg slys“

Í myndbandi Unnsteins má sjá fjölmörg dæmi þess að fólk …
Í myndbandi Unnsteins má sjá fjölmörg dæmi þess að fólk stöðvi bíla í vegkanti og á gatnamótum. Skjáskot/Facebook

„Þetta býður upp á hörmuleg slys og er mjög hættuleg hegðun. […] Það eiginlega virtist vera svolítið knýjandi að láta vita af þessu,“ segir Unnar Már Sigurbjörnsson um myndband sem hann deildi inn á Facebook síðuna Bakland ferðaþjónustunnar á sunnudag.

Myndbandið hefur vakið mikla athygli á Facebook og eru menn þar sammála um mikilvægi þess að brýna fyrir ferðamönnum hversu hættulegar aðstæður geta myndast þegar fólk stöðvar bíla í vegkanti. Þá segja margir að ástandið hafi aldrei verið verra og að fleiri og fleiri taki nú upp á því að stöðva bíla á þjóðvegunum til að skoða eitthvað í nágrenninu.

 „Ég tók nú bara mælaborðsmyndavélina með af rælni þessa helgi. Þetta eru myndbönd frá því á laugardagseftirmiðdag og í kringum hádegi á sunnudag. Í þessar tvær upptökur koma bara þessi fjölmörgu atvik og öll auðvitað stóralvarleg, þannig séð.“

Að sögn Unnars stoppar fólk hvar sem er og hvenær sem er. „Þetta er út um allt og fer svolítið eftir árstíðum. Ef það er rigning á Austfjörðum og mikið í lækjunum þá er stoppað við hvern einasta foss og sprænu. Í Öræfasveit er stoppað við allar sprænur sem falla fram af steini og undir Eyjafjöllum er þetta eins. Þannig er þetta bara landið um kring.“

Unnar hefur einnig deilt sama myndbandi á ensku á Facebook síðu sinni og hvetur hann alla sem eru í samskiptum við ferðamenn til að láta þá vita af hættunni sem skapast við athæfið.

Unnar vildi einnig koma á framfæri mistökum sem hann gerði við klippingu á íslenska myndbandinu en þar eru bæirnir Efstidalur 1 og 2 ranglega kallaðir Efri-Brú.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert