Þrjú ár fyrir að nauðga 16 ára stúlku

mbl.is/G.Rúnar

Dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur hafa dæmt ungan mann í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað stúlku sem var sextán ára gömul þegar brotið var framið gegn henni. Honum er jafnframt gert að greiða henni 900 þúsund krónur í skaðabætur og tæplega 2,4 milljónir króna í sakarkostnað.

Brotið framdi maðurinn, sem hafði sótt um hæli á Íslandi en fengið synjun, í mars í fyrra. Maðurinn var ákærður fyrir kynferðisofbeldi gagnvart stúlkunni, sem var á sautjánda aldursári þegar hann braut gegn henni, í byrjun desember og féll dómurinn í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Samkvæmt ákæru beitti pilturinn stúlkuna ólögmætri nauðung til þess að hafa við hana samræði og önnur kynferðismök en hann nuddaði kynfæri hennar og lagðist síðan ofan á hana og hafði við hana samræði, þrátt fyrir að hún hefði sagt honum að hún vildi það ekki og beðið hann um að hætta. Ungi maðurinn neitaði sök fyrir rétti. Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn sé ungur að árum en ekki getið um hversu gamall hann er en hann fékk fósturforeldra við komuna til landsins á vegum Barnaverndar. 

Stúlkan lagði fram formlega kæru á hendur manninum í byrjun apríl en þar kom fram að hún hafi kynnst honum þegar hann spurði hana til vegar í strætisvagni. Þau hafi skipst á símanúmerum og í framhaldi farið að tala saman á Facebook. Þau hafi nokkru síðar mælt sér mót og farið saman á gistiheimili.

Í herbergi á gistiheimilinu hafi þau í tvígang haft samræði. Stúlkan hafi farið á snyrtinguna og er hún hafi komið til baka hafi hann viljað hafa samræði við hana í þriðja skiptið. Það hafi hún ekki viljað og gert honum grein fyrir því. Þrátt fyrir það hafi hann nuddað kynfæri hennar og þvingað hana til samræðis.

Stúlkan sagðist í  framhaldi haft samband við vin sinn sem hafi ekið henni og nauðgaranum til Hafnarfjarðar, þar sem hann hafi yfirgefið bifreiðina. Um leið hafi hún brotnað saman og gert vini sínum og öðrum dreng, sem hafi verið honum samferða, grein fyrir því sem komið hefði fyrir.    

Breytti framburði sínum ítrekað

 Við skýrslutöku hjá lögreglu sagðist ungi maðurinn ekkert kannast við stúlkuna. Hann hefði aldrei hitt hana né verið í samskiptum við hana á Facebook. Hver sem er hafi getað notað nafn hans og aðgang á Facebook og víðar.

Nokkrum vikum síðar óskaði hann eftir að gefa skýrslu og vildi breyta framburði sínum. Hann hafi verið hræddur í fyrra skiptið og liðið eins og hann væri einn. Hann væri einn í nýju landi og þekkti ekki hvernig hlutirnir gengju fyrir sig.

Hann staðfesti að hafa hitt stúlkuna í strætó. Síðar hafi hann farið að ræða við hana á Facebook og þau hist í Hafnarfirði. Þar hafi þau rætt saman um venjulega hluti en eftir það hafi hann ekkert hitt hana.

Hann kannaðist við sumt sem þeim hafði farið á milli á Facebook en annað ekki. Honum var gerð grein fyrir því að lífssýni úr honum hefðu fundist í nærbuxum stúlkunnar samkvæmt DNA-greiningu er fram hefði farið.

Kvaðst hann þá kannast við að hafa farið með henni í strætisvagni frá Hafnarfirði að Hlemmi í Reykjavík. Hafi hann keypt áfengi en stúlkan marijúana sem þau hafi reykt. Hafi ekkert gerst á milli þeirra sem skýrt gæti niðurstöður úr DNA-rannsókninni.

Fyrir dómi breyttist frásögn hans því þar viðurkenndi hann að þau hefðu haft samræði og það hafi verið með vilja beggja. Við réttarhöldin lýsti hann því hvernig þau hafi haft samræði í annað skiptið en kannaðist ekki við að hafa þvingað hana til kynmaka í þriðja skiptið. 

Sagðist hafa verið lélegur í ensku og kaþólsk trú hans haft áhrif

Hann var spurður um ástæðu þess að framburður hans tæki sífelldum breytingum og nú fyrst fyrir dómi viðurkenndi hann að hafa haft samræði við stúlkuna. Hann kvaðst nýlega hafa verið fluttur til landsins og verið með hælisumsókn í gangi. Hann hafi engum treyst; ekki einu sinni lögreglu en af henni hafi hann haft slæma reynslu frá sínu heimalandi þar sem mikil spilling hafi ríkt. Eins hafi hann óttast að vera vísað úr landi en hann kom til landsins í byrjun janúar 2016 sem flóttamaður.

Þá færi samneyti af þessum toga við stúlkur gegn trúarskoðunum hans en hann væri kaþólskrar trúar. Það hafi einnig verið ástæða þess að hann hefði í upphafi synjað fyrir að hafa haft samræði við stúlkuna.

Að sögn unga mannsins var hann lélegur í ensku þegar hann kom til Íslands og hafi oft notað þýðingarforrit þegar hann hafi verið að senda henni skilaboð á Facebook.  Hann kvaðst til dæmis ekki hafa skilið þegar hún hefði sent honum þau skilaboð á ensku að hann hefði nauðgað henni. Enskukunnátta hans hafi verið það bágborin á þeim tíma og hann staðið í þeirri trú að hún væri að tala um að hún vildi ekki ræða við hann.   

Að mati dómsins eru skýringar mannsins á breyttum framburði sínum ekki alls kostar trúverðugar. Þannig hefur hann breytt framburði sínum eftir því sem frekari sönnunargögn, sem tengt hafa hann við stúlkuna, hafa komið til sögunnar. Getur slík breyting á framburði ekki skýrst af því að hann hafi ekki treyst lögreglu.

Í Facebook-samskiptum 13. mars 2016 spyr stúlkan hann hvort hann viti ekki hvað hann hafi gert en ofbeldið framdi maðurinn daginn áður. Eftir nokkur tjáskipti segir stúlkan að hann hafi nauðgað henni. Þegar einstaklingur segi nei, ekki og stopp þýði það stopp. Í þessum samskiptum biðst ungi maðurinn fyrirgefningar. Hanni hefur gefið þá skýringu á þessum samskiptum að hann hafi ekki skilið enska þýðingu á hugtakinu nauðgun. Það er ekki trúverðugt þar sem um líkt leyti sendi hann stúlkunni SMS-skilaboð þar sem hann segir stúlkuna hafa sagt lögreglu að hann hefði nauðgað sér. Það er því niðurstaða dómaranna að hann eigi sér engar málsbætur og gert að sæta þriggja ára fangelsi.

Frétt mbl.is: Hælisleitandi ákærður fyrir nauðgun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert