8 ára dómur fyrir tilraun til manndráps

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Karlmaður var á þriðjudaginn dæmdur í átta ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir tilraun til manndráps, nauðgun, frelsissviptingu og sérstaklega hættulega líkamsárás gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari hjá héraðssaksóknara, í samtali við mbl.is. Sagt var fyrst frá dóminum á vef RÚV í morgun.  Maðurinn var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald 24. júlí á síðasta ári.

Kolbrún segir að dómurinn hafi verið í samræmi við það sem ákæruvaldið fór fram á, en lágmarksrefsing fyrir tilraun til manndráps er 5 ára fangelsi. Segir Kolbrún að í þessu máli hafi þó einnig verið sakfellt fyrir fleiri brot og það þyngi refsinguna. Þá hafi héraðsdómur horft til þess að brotið hafi verið framið gegn barnsmóður mannsins.

Dómurinn hefur ekki verið birtur á vef héraðsdóms, en í ágúst staðfesti Hæstiréttur gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manninum vegna málsins. Þar kom fram að hann væri með dóm á bakinu vegna heimilisofbeldis gagnvart konunni frá árinu 2014.

Samkvæmt greinargerð lögreglunnar sem vísað var til í dómi Hæstaréttar kom lögreglan á heimili konunnar að beiðni Neyðarlínunnar eftir að konan hafði óskað eftir aðstoð. Greindi hún frá miklu ofbeldi sem hann hefði beitt hana um nóttina og var hún með sýnilega áverka.

Við skýrslutöku í málinu kom fram að maðurinn hefði komið á heimilið ásamt félaga sínum klukkan fimm um nóttina. Hún hefði ætlað í rúmið, en þeir hefðu svo komið inn í herbergi til hennar á nærbuxunum einum fata. Fyrrverandi sambýlismaður hennar bað hana um að sofa hjá þeim báðum sem hún neitaði.

Skömmu síðar kom svo barnsfaðirinn aftur og óskaði eftir að fá að gista. Hún leyfði það gegn því að hann væri á sófanum. Þar sem hún vildi ekki hafa sam­far­ir við hann þá réðst hann á hana og nauðgaði og stóð of­beldið yfir í tvær klukku­stund­ir. Hann nauðgaði henni ít­rekað, barði hana og hótaði. Hafi hann þannig haft við hana sam­far­ir um munn, í leggöng og í endaþarm, að því er kom fram við skýrslutökur.

Þá kom einnig fram að maðurinn hefði hótað henni með hníf og var hún með áverka á hálsi eftir hnífinn. Síðar nauðgaði maðurinn henni aftur í sturtu og skellti henni á vegg þar. Þá tók maðurinn hana kverkataki þar til hún missti meðvitund þegar hún reyndi að komast út úr íbúðinni og óska aðstoðar.

Kom fram í skýrslunni að áverkar konunnar væru í samræmi við frásögn hennar af atburðinum og að við skoðun læknis hefðu komið fram áverk­ar á kyn­fær­um sem ekki kæmu við venju­legt kyn­líf.  Við skoðun lög­reglu á vett­vangi hafi mátt sjá blóðslett­ur víða um íbúðina. Blóðugur beitt­ur hníf­ur fannst í vaski baðher­berg­is­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert