Megi innheimta við ferðamannastaði

Ef frumvarpið nær fram að ganga mega sveitarfélög innheimta bílastæðagjöld …
Ef frumvarpið nær fram að ganga mega sveitarfélög innheimta bílastæðagjöld í dreifbýli.

Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytið undirbýr nú frumvarp til breytinga á umferðarlögum. Breytingarnar snúa að því að heimila ríkinu og sveitarfélögum að taka bílastæðagjöld í dreifbýli, svo sem við ferðamannastaði. Í dag nær heimildin eingöngu til gjaldtöku í þéttbýli.

Í svari við fyrirspurn mbl.is segir Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, að kallað hafi verið eftir slíkri heimild í kjölfar umræðu um gjaldtöku við vinsæla ferðamannastaði. Frumvarpið sé þá samið í samráði við fjármálaráðuneytið og sveitarfélög.

Nauðsyn fyrir frekari uppbyggingu

„Ekki er að finna almenna heimild til gjaldtöku fyrir notkun á bílastæðum í umferðarlögum. Gjaldtaka á stæðum á landsvæði í eigu ríkis eða sveitarfélaga er því ekki möguleg. Í samræmi við aukinn fjölda ferðamanna eykst nauðsyn á frekari uppbyggingu innviða víðsvegar um landið,“ segir ráðherra.

Mikilvægt sé því að huga að aðstöðu, meðal annars við ferðamannastaði og bílastæði, auk gæslu og annars aðbúnaðs.

Til að standa straum af kostnaði við slíka uppbyggingu og veitta þjónustu gerir frumvarpið ráð fyrir að heimiluð verði gjaldtaka á bílastæðum í dreifbýli. Með einfaldri breytingu á umferðalögum gefist færi á gjaldtöku á  bílastæðum í eigu ríkis og sveitarfélaga.

Einkaaðilum sé á hinn bóginn í sjálfsvald sett hvernig gjaldtöku á bílastæðum í þeirra eigu sé háttað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert