Sturtum við íslenskunni í klósettið?

Þórarinn Eldjárn.
Þórarinn Eldjárn. mbl.is/Kristinn

Má alltaf finna svar á íslensku? Ekki er sjálfsagt að íslenskan lifi af en stöðugar tæknibreytingar, ferðamannastraumur og fleira gerir það að verkum að áhrif ensku aukast stöðugt. Fjallað var um stöðu íslenskunnar og hvað má gera til að bæta hana á Menntadegi atvinnulífsins sem haldinn var í dag.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, sagði í sinni framsögu að álagið á íslensku væri að aukast. Staðan væri á yfirborðinu góð en undir niðri væri hún brothætt. Álagið á íslensku hefði aukist á síðustu fimm árum og muni aukast enn frekar á næstunni.

Ástæður þess eru flestar utanaðkomandi og óviðráðanlegar, jákvæðar breytingar sem tengjast þjóðfélags- og tæknibreytingum. Snjalltækjabyltingin, allir strjúka símanum sínum, Youtube- og Netflix-væðingin, ferðamannastraumurinn eru dæmi um þetta. Auk þess nefndi Eiríkur að fólki með annað móðurmál hefur fjölgað og að háskólastarf er í auknum mæli á ensku. Ungt fólk vill geta búið og starfað erlendis og sér þá að íslenskan muni ekki nýtast mikið. „Flest er þetta mjög jákvætt,“ sagði Eiríkur.

Íslenskan gæti þótt hallærisleg

„Bein áhrif frá ensku aukast í orðaforða, setningagerð, beygingum og framburði. Börn heyra minna af íslensku á máltökuskeiði en einhverjir foreldrar eru alltaf í snjallsímanum og hafa ekki tíma til að sinna börnunum,“ sagði Eiríkur og bætti við að notkunarsvið íslensku gæti farið að skerðast í viðskiptalífinu og ferðaþjónustu og virðing fyrir tungumálinu minnkað. „Íslenskan gæti farið að þykja hamlandi og hallærisleg ef hún er ekki nothæf á öllum sviðum.“

Enskuáreitið er meira og víðtækara en nokkru sinni fyrr en enska máláreitið nær til yngri barna en áður. Börnin eru orðin virkir notendur á ensku.

„Þetta getur haft áhrif á máltöku barna en hún fer fram á fyrstu 6-9 árum og er lokið við kynþroskaaldur. Snjalltækjavæðing getur truflað máltöku, en börn og foreldrar tala minna saman,“ sagði Eiríkur.

„Nenna“ ekki til í ensku

Þórarinn Eldjárn, rithöfundur og skáld, velti því fyrir sér hvort það mætti alltaf finna svar á íslensku, eins og segir í orðatiltækinu. Ekkert tungumál væri nógu fullkomið til að dekka öll orð, hvorki íslenska né önnur.

Til að mynda höfum við ekkert orð yfir það sem Dani kalla að „hygge sig“. Eins væri ekki til neitt orð á ensku yfir að nenna. Þórarinn benti þó á að það kæmi ekki í veg fyrir að Bretar nenntu einhverju ekki, enda felist í því spurning um að hugsa en ekki tala.

Hann sagði að fámennið væri ekki veikleiki heldur styrkur. „Sigurður Pálsson benti á að einmitt af þeim sökum neyðumst við til að læra önnur tungumál. Það gerir okkur miklu ríkari en margar stórþjóðir sem lokast inni í eigin tungu,“ sagði Þórarinn.

Ekki arðbært að eltast við steingervinga

Fámennið kalli þó yfir okkur vissar hættur. Stórfyrirtækjum þykir ekki arðbært að eltast við mállýsku steingervinga á hjara veraldar og þau verða ánægð þegar steingervingarnir segjast góðir í ensku. „Væri þá ekki fínt að geta sagt „hungry“ við ísskápinn og „flush“ við klósettið? Hafa ekki sálmálfræðingar og málsálfræðingar sýnt fram á að það er þroskandi fyrir heilann að hafa vald á tveimur tungumálum?“ spurði Þórarinn.

Hollt og gott sé fyrir heilabú að vera tvítyngdur ef maður hefur samtímis tekið tvö tungumál frá fæðingu. „Sá sem ætlar að gera það á hinn mátann gerir það ekki. Hann verður varla eintyngdur og varla svo hálftyngdur,“ sagði Þórarinn.

„Okkur ber að standa vörð um íslenskuna alls staðar. Ekki af þjóðrembingi eða af því að hún er vesalingur. Vegna þess að okkur var trúað fyrir henni og af því bara. Við verðum að búa íslenskunni þeim vopnum sem hún þarf á að halda í stafrænni skálmöld.“

Snúið og skemmtilegt viðfangsefni

Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Símanum, sagði stöðuna í dag einfaldlega vera þá að öll tæki sem svöruðu skipunum gerðu það á ensku. Íslenskan væri snúið og skemmtilegt viðfangsefni.

Erlendur sérfræðingur sem starfar hjá Símanum hefur oft talað um það að lítið sé passað upp á íslenskuna varðandi tækni. Maðurinn hefur margoft talað um þetta og bent Birnu á að Katalónar hugsi til að mynda miklu betur um eigið tungumál.

Hún tók dæmi af breyttu umhverfi frá Símanum þar sem hún sagði að ungt fólk starfaði oft í nokkur ár eftir að háskólanámi lýkur til að öðlast starfsreynslu. „Unga fólkið í dag á miklu auðveldara með að vinna í tæknilegu umhverfi en fyrir fimm árum; þau eru alltaf í tæknilegu umhverfi,“ sagði Birna en bætti við að þau væru hins vegar ekki næstum því jafn góð í íslensku og fyrir fimm árum, enda fyndist þeim íslenskukunnátta ekki jafn mikilvæg.

„Ég sagði handrit, ekki Andrés“

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, flutti örstutt erindi í lokin. „I am here to talk about the national heritage and the beautiful Icelandic language. Verður þetta svona?“ spurði Guðni og uppskar hlátur úr salnum.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, með blaðið sem kom út ...
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, með blaðið sem kom út degi áður en hann fæddist árið 1968.

„Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn. Bara þessi fundur sýnir að við getum gert eitthvað og viljum gera eitthvað. Ég ætla að vera jákvæður,“ bætti Guðni við.

Forsetinn minntist að lokum á opinbera heimsókn sína til Kaupmannahafnar, sem farin var í síðustu viku. Hann fór meðal annars á Árnastofnun þar sem sjá má hluta gömlu handritanna. „Ég hafði orð á því að það hefði verið gaman að fá meira af þeim þegar ég var úti. Svo hafið þið kannski tekið eftir því í fréttum að mér barst sending, Andrésblað á dönsku. Ég hafði talað um hvað mér þætti gaman að lesa dönsku í gegnum Andrés Önd og fékk blað sent. Ég sagði handrit, ekki Andrés,“ sagði Guðni og bætti við að þessi brandari væri stolinn frá góðum vini hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina