Leit við Selvogsvita í dag

Birna Brjánsdóttir fannst látin við Selvogsvita 22. janúar.
Birna Brjánsdóttir fannst látin við Selvogsvita 22. janúar. mbl.is/Hallur Már

Hópur björgunarsveitarmanna mun í dag taka þátt í leit á svæði við Selvogsvita á Reykjanesi, í námunda við staðinn þar sem Birna Brjánsdóttir fannst látin 22. janúar.

Verið er að fylgja eftir vísbendingu sem tengist málinu, að sögn lögreglunnar.

Leitað verður á svæðinu við Vogsósa, vestan við Selvogsvitann, m.a. í nágrenni affallsins úr Hlíðarvatni. Björgunarsveitarmenn af Suðurlandi og Suðurnesjum taka þátt samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg. Leit hefst um kl. 13 og verður leitað fram í myrkur ef þurfa þykir.

„Hjálparsveitirnar ætla að aðstoða okkur við að fylgja eftir vísbendingu sem ég vil ekki fara nánar út í hver er,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. „Við ætlum að kanna það hvort það finnist þarna hlutir sem gætu tengst málinu.“

Lögreglan hefur frá því að Birna fannst látin í fjörunni við vitann sagt að líklega hafi henni verið komið fyrir í sjónum á öðrum stað. Segist hún hafa hugmynd um hvar það kunni að vera án þess að hafa fengið það staðfest að fullu.

Leitað verður m.a. við affallið úr Hlíðarvatni í Ölfusi, skammt …
Leitað verður m.a. við affallið úr Hlíðarvatni í Ölfusi, skammt frá Selvogi. Kort/Maps.is

Ekki yfirheyrður um helgina

Enn er beðið niðurstöðu úr rannsókn á lífsýnum sem tekin voru af munum um borð í Polar Nanoq, m.a. fötum tveggja skipverja sem voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins. Grímur segir að það styttist í að þær berist, mögulega verði það síðar í vikunni. 

Enn er eyða í þeim upplýsingum sem liggja fyrir um ferðir rauða Kia Rio-bílsins að morgni laugardagsins 14. janúar, daginn sem Birna hvarf. Fram hefur komið að hann kom inn á hafnarsvæði Hafnarfjarðarhafnar um kl. 6.10 um morguninn en var svo ekið burt af bryggjunni og sást þar ekki aftur fyrr en um kl. 11.30.

Karlmaðurinn sem er enn í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa ráðið Birnu bana, hefur ekki verið yfirheyrður um helgina og ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær yfirheyrslur yfir honum hefjast að nýju.

Grímur segir að játning mannsins liggi ekki fyrir í málinu.

Hann segir að enn sé ekki hægt að segja til um hvenær rannsókn lögreglunnar á málinu ljúki og það verði sent áfram til ákæruvaldsins.

Kokkurinn af Polar Nanoq lýsti því í viðtali við færeyska sjónvarpið í fyrradag hvernig honum og öðrum úr áhöfninni varð við er ljóst var að samstarfsmenn þeirra tengdust hvarfi Birnu. Hann segir málið allt hafa fengið verulega á sig.

Frétt mbl.is: „Það er stúlkan, Birna“

Snerti alla þjóðina

Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur segir í viðtali við Guardian í dag að mál Birnu hafi snert hvern einasta Íslending. „Þetta snerti streng hjá þjóðinni. Birna var svo heilsteypt manneskja, svo falleg, svo ung, svo hamingjusöm. Hún hafði aldrei gert nokkrum manni illt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert