Vill geta brugðist við með litlum fyrirvara

Denis Mercier hershöfðingi og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra
Denis Mercier hershöfðingi og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

„Við stöndum frammi fyrir margs konar ógnum í Evrópu og á Norður-Atlantshafi. Bæði frá ríkjum, eins og mögulega Rússlandi, og hryðjuverkasamtökum, og í öllu sem við gerum reynum við að hafa yfirsýn í allar áttir. Í því sambandi eru tengslin yfir Atlantshafið jafnvel enn mikilvægari en þau voru áður. Þar er Ísland í lykilhlutverki vegna landfræðilegrar legu landsins í Atlantshafinu.“

Þetta segir Denis Mercier, hershöfðingi hjá Atlantshafsbandalaginu (NATO), í samtali við Morgunblaðið. Mercier, sem einnig er hershöfðingi í flugher Frakklands, var staddur í heimsókn hér á landi fyrir helgi og átti fundi meðal annars með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. Þá kynnti hann sér ennfremur aðstæður á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Sé ávallt viðbúið hverri ógn

Spurður hvort NATO hafi áhuga á að auka umsvif sín hér á landi þegar kemur að varnar- og öryggismálum segir Mercier að almennt leggi bandalagið áherslu á að vera ávallt í stakk búið til þess að bregðast við breyttum aðstæðum og vaxandi ógn eða mögulegum nýjum ógnum. Hvort sem það er í suðri, norðri, austri eða vestri.

Þetta þýði að NATO þurfi að geta haft aðgang að stöðvum þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi til þess að geta brugðist við með skömmum fyrirvara. Þarna kæmi Ísland meðal annars við sögu. Ekki síst þegar komi að samskiptakerfum sem þjóni varnarmálum á svæðinu í kringum landið. Kerfin þurfi hins vegar að uppfæra og það hafi verið rætt við íslensk stjórnvöld.

Tillögur frá Íslandi í skoðun

„Varnarsvæðið er mikilvægt en þessi samskiptakerfi eru ekki minna mikilvæg. Íslensk stjórnvöld hafa lagt fram tillögur í þessum efnum og við erum að fara yfir þær. Þær þarf að bera undir öll aðildarríkin með það fyrir augum að kanna með hvaða hætti við getum í það minnsta gert þær aðstæður sem eru fyrir hendi hér á landi betur skipulagðar til þess að þær nýtist NATO,“ segir hershöfðinginn enn fremur.

Frá heræfingum á Keflavíkurflugvelli í tengslum við varnarsamning Íslands við …
Frá heræfingum á Keflavíkurflugvelli í tengslum við varnarsamning Íslands við Bandaríkin. mbl.is/ÞÖK

Komið hefur fram í máli ýmissa sérfræðinga í varnarmálum að mistök hafi verið gerð af hálfu bandarískra stjórnvalda að loka herstöðinni í Keflavík árið 2006. Meðal annars var það haft eftir Gerry Hendrix, fyrrverandi skipherra í bandaríska sjóhernum og sérfræðingi hjá hugveitunni Center for a New American Security (CNAS), á síðasta ári og í skýrslu á vegum bandarísku hugveitunnar Center for Strategic and International Studies (CSIS) var lagt til að hún yrði opnuð á ný. Þá sagði aðalsamningamaður Bandaríkjanna í viðræðum við íslensk stjórnvöld, Robert G. Loftis prófessor, að þáverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Donald Rumsfeld, hafi ákveðið að loka herstöðinni.

Spurður hvort hann sé sammála því að mistök hafi verið gerð þegar herstöðinni hér á landi var lokað segir Mercier að vafalaust hafi ákveðnar ástæður verið lagðar til grundvallar þeirri ákvörðun á sínum tíma. Hins vegar væri það stundum þannig að eitthvað sem væri ekki talið eiga rétt á sér á ákveðnum tímapunkti gæti átt það við aðrar aðstæður. „Ég geri ráð fyrir að þegar þessi ákvörðun var tekin hafi verið rök fyrir því þó að ég þekki þau ekki öll. En það er mjög erfitt að dæma ákvarðanir í fortíðinni út frá aðstæðum í nútímanum.“

Hins vegar hafa íslenskir ráðamenn lagt ríka áherslu á að ekki standi til að bandarísk herstöð verði opnuð á nýjan leik hér á landi. Hins vegar sé mikilvægt að varnir Íslands séu tryggðar með sem bestum hætti miðað við aðstæður á hverjum tíma. Það markmið virðist fara saman við sýn NATO á stöðu mála.

Vel í stakk búið til eftirlits

Spurður hversu góða mynd NATO hafi af umsvifum Rússa á svæðinu í kringum Ísland og í Norður-Atlantshafi, einkum þegar kemur að kafbátum, segir Mercier að bandalagið sé vel í stakk búið til þess að sinna slíku eftirliti. Það þýði hins vegar ekki að hægt að betrumbæta eftirlitið þegar aðstæður breytast. Það sé einmitt það sem verið sé að gera núna.

Meðal þess sem lögð hafi verið áhersla á á leiðtogafundi NATO síðasta sumar hafi verið að bæta sífellt viðbragðshraða bandslagsins. Spurður aftur hversu góða mynd NATO hefði af ferðum rússneskra kafbáta um svæðið svaraði Mercier því til að þar væri um að ræða trúnaðarupplýsingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert