Ákvörðun um ný göng á þessu ári

Forstjóri Vegagerðarinnar segir það ekki spurningu um hvort, heldur hvenær …
Forstjóri Vegagerðarinnar segir það ekki spurningu um hvort, heldur hvenær ný Hvalfjarðargöng verða byggð. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Vegagerðin reiknar með að taka þurfi ákvörðun á þessu ári um hvenær og hvernig skuli gera ný Hvalfjarðargöng. Sömuleiðis þarf að taka ákvörðun um fjármögnunina.

„Við erum að taka saman upplýsingar um hvaða kröfur eru gerðar til jarðganga eins og Hvalfjarðarganganna í dag. Það er reiknað með því að það verði önnur göng við hliðina og það eru komnar aðrar og stífari kröfur núna,“ segir Hreinn Haraldsson, forstjóri Vegagerðarinnar, og nefnir að verið sé að meta kostnað.

Hann bætir við að staðan hafi verið kynnt fyrir nýjum samgönguráðherra, Jóni Gunnarssyni.

Þurfa nýja umferðarspá

„Síðan er hugmynd okkar, til viðbótar við göngin sjálf, að fá fram á árinu nýja umferðarspá miðað við nýjustu forsendur og þessa miklu aukningu sem hefur verið undanfarið.“

Á vefsíðu Spalar ehf., sem á og rekur Hvalfjarðargöngin, kemur fram að umferðin í göngunum hafi aukist um tæplega 11% í janúar síðastliðnum frá sama mánuði í fyrra.

Sömuleiðis jókst umferð um hringveginn um 13% í janúar miðað við sama tíma í fyrra, að því er kom fram á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri.
Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Snýst um aðeins um tímasetningar

Hreinn segir alveg ljóst að ráðast þurfi í gerð nýrra Hvalfjarðarganga og að málið snúist eingöngu um tímasetningar. Hann bendir á að fyrir nokkrum árum hafi verið miðað við að hefja framkvæmdir í kringum árið 2022 og að göngin yrðu tilbúin í kringum 2025. Vegna mikillar umferðaraukningar síðustu ára, að stórum hluta vegna aukins fjölda ferðamanna, séu auknar líkur á að framkvæmdirnar hefjist fyrr en áður var reiknað með.

„Það er ljóst að það þurfa að koma önnur göng, fyrst og fremst vegna öryggis en líka vegna afkasta. Með þessum mikla umferðarþunga verða tafirnar á næstu árum alltaf meiri og meiri, að minnsta kosti á umferðarþungum dögum.“

mbl.is/Sigurður Bogi

Kröfur um minni halla í göngum 

Í ársskýrslu Spalar frá síðasta ári var áætlaður kostnaður vegna nýrra Hvalfjarðarganga metinn um 11 milljarðar króna. Hreinn á von á meiri kostnaði vegna þessa að kröfurnar eru orðnar stífari. Aukinn búnaður þarf að vera í göngunum, þar á meðal skynjarar og myndavélakerfi, auk þess sem kröfur eru uppi um minni halla í göngum. Það þýðir að göngin þyrftu að verða lengri en áður var reiknað með. Hann tekur þó fram að núverandi göng uppfylli allar kröfur eins og staðan er í dag.

Pólitísk spurning um gjaldtöku

Hvalfjarðargöngin voru opnuð í júlí árið 1998. Gjaldtöku í göngunum á að ljúka á næsta ári, tuttugu árum síðar. Spurður hvernig göngin verði fjármögnuð og hvort áframhaldandi gjaldtaka komi til greina kveðst Hreinn ekki vilja giska á hvernig þeim málum verði háttað. „Það er pólitísk spurning sem á eftir að fara í gegnum og taka ákvörðun um.“

mbl.is