Dýrast að vista börn í Garðabæ

Skapti Hallgrímsson

Allt að 51% munur er á kostnaði foreldra við hádegisverð og síðdegisvistun grunnskólabarna meðal stærstu sveitarfélaga landsins samkvæmt nýrri samantekt verðlagseftirlits ASÍ. Gjald fyrir hádegisverð, 3 tíma síðdegisvistun og hressingu fyrir barn í neðri bekkjum grunnskólans er hæst í Garðabæ 36.484 kr. á mánuði en lægst í sveitarfélaginu Skagafirði 24.234 kr.

Hækkað mest í Reykjavík

Heildarkostnaður foreldra vegna þessarar þjónustu hefur hækkað í öllum 15 sveitarfélögunum sem til skoðunar eru undanfarið ár. Mesta hækkunin milli ára er í Reykjavík, þar sem heildarkostnaður vegna þessarar þjónustu hækkar úr 23.530 kr. í 26.100 kr. á mánuði eða um 11% sem er að mestu tilkomið vegna hækkunar á hádegisverði. Minnsta hækkunin milli ára er hjá Ísafjarðarbæ þar sem heildarkostnaður foreldra fer úr 31.267 kr. á mánuði í 31.603 kr. sem er 1% hækkun.

Samantektin nær til 15 fjölmennustu sveitarfélaga landsins. Uppbygging gjaldskráa sveitarfélaganna er mjög mismunandi, en í þessum samanburði er miðað við þriggja tíma dagleg vistun eftir skóla ásamt síðdegishressingu og hádegismat í 21 dag á mánuði.  Ekki er tekið tillit til seðilgjalda eða annarra innheimtugjalda sem kunna að leggjast ofan á gjöldin og eru í sumum tilvikum innheimt í tvennu lagi. Í sumum sveitarfélögum er einnig í boði ávaxtastund og mjólkuráskrift á skólatíma sem er ekki er hluti af samanburðinum, segir í fréttatilkynningu frá ASÍ.  

Allt að 41% verðmunur á hádegisverði

Ef eingöngu er skoðuð gjaldskrá fyrir hádegisverð sem í boði er fyrir grunnskólabörn á öllum aldri má sjá að allt að 41% verðmunur milli sveitarfélaga. Hæsta verðið er á Ísafirði þar sem máltíðin kostar 492 kr. eða 10.332 krónur á mánuði ef gert er ráð fyrir 21. vikum degi í mánuði. Lægsta verðið er hins vegar í sveitarfélaginu Árborg, 349 kr. máltíðin eða 7.329 krónur á mánuði.

Hlutfallslega hækkar verð á hádegismat grunnskólabarna mest í Reykjavík milli ára eða um 30%, máltíðin fór úr 338 kr. í 441 kr. Í Reykjanesbæ nemur hækkunin 10% en þar hækkar máltíðin úr 350 kr. í 385 kr. Í Hafnarfirði hækkar máltíðin um ríflega 8% milli ára, í sveitarfélaginu Skagafirði um 6% og í Kópavogi, Mosfellsbæ og á Akranesi um 4%. Akureyri og Vestmannaeyjar eru einu sveitarfélögin þar sem gjald fyrir hádegisverð grunnskólabarna er óbreytt milli ára.  

Sjá nánar hér

Hollur og næringaríkur matur skiptir miklu máli.
Hollur og næringaríkur matur skiptir miklu máli. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert