Er forsætisráðherra sáttur við frammistöðuna?

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Bjarna Benediktsson forsætisráðherra hvers vegna tvær skýrslur sem hann lét vinna sem fjármálaráðherra í síðustu ríkisstjórn birtust ekki fyrr en seint og um síðir í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Annars vegar er um að ræða skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og hins vegar skýrslu um áhrif leiðréttingarinnar. 

„Mig langar að spyrja forsætisráðherra hvort hann sé sáttur við þessa frammistöðu, hvort hann telji hvort ekki hefði átt að gera betur og hvort hann skuldi Alþingi ekki afsökunarbeiðni fyrir að þetta var ekki birt fyrr?“ spurði Katrín og beindi orðum sínum til Bjarna.

Ekki einsdæmi að málum sé ekki svarað

Bjarni sagði mál þessi snúist um skyldu ráðherra til að svara. Nú væri látið eins og það væri algjört einsdæmi að málum væri ekki svarað. Benti Bjarni á að þegar Katrín var í ríkisstjórn hefði 19 skriflegum fyrirspurnum ekki verið svarað fyrir kosningar árið 2013.

Forsætisráðherra sagðist ennfremur margoft hafa svarað fyrir aflandsskýrsluna. „Þeir sem hafa helst rætt þetta láta eins og það hefði verið bráðnauðsynlegt að koma þeim fyrir almenning. Þegar ég spyr hvað sé svona mikilvægt þá er fátt um svör og þá bakka menn niður í almenna afstöðu. Ég tek undir að það er mikilvægt að ráðherrar svari en það hefur ekki alltaf tekist. Fyrirspyrjandi þekkir það sjálf,“ sagði Bjarni.

Bjóst við betra svari

Katrín steig aftur upp í pontu og sagðist hafa búist við betra svari frá forsætisráðherra. „Ég hef ekki sagt það nokkurs staðar að innihald aflandsskýrslu hefði áhrif á kosningar,“ sagði Katrín og bætti við að málið væri stórpólitískt en það hefði orðið til þess að kosningum var flýtt. Sama mætti segja um skýrslu um leiðréttinguna og það væri eðlilegt ef þingmenn legðu fram beiðni í október 2015 kæmu svör fyrr.

Upplýsingar voru veittar

Bjarni sagðist ekki vera ósammála Katrínu um að skýrslum skyldi svarað hratt og örugglega. Hann benti hins vegar á að Pétur Blöndal hefði í þrígang sett fram fyrirspurn þegar Katrín var síðast í ríkisstjórn en aldrei kom svar við því.

„Leiðréttingarskýrslan tók of langan tíma en gleymum því ekki að henni var skilað til þingsins. Sama gildir um aflandsskýrsluna, henni var skilað. Upplýsingum var lofað, upplýsingar voru veittar,“ sagði Bjarni.

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina