„Við erum komin að mörkunum“

Í skýrslunni er meðal annars bent á að bæta þurfi …
Í skýrslunni er meðal annars bent á að bæta þurfi flutningskerfið hér á landi til að tengja „eyjasvæði“ í raforkukerfinu. mbl.is/Rax

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri segir að komið sé að mörkunum varðandi raforkukerfið hér á landi og orkuöryggi. Staðan núna sé sú að ekki fáist einu sinni tilboð frá raforkuframleiðendum þegar boðið sé út svokallað tap í raforkuflutningi, en um sé að ræða 40 megavött sem tapist hjá Landsneti.

Í dag hélt Orkustofnun fund þar sem niðurstöður skýrslu, sem unnin var af sérfræðingum frá háskólastofnunum MIT í Bandaríkjunum og IIT Comillas á Spáni, fyrir Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsnet, voru ræddar.

Helstu niðurstöður skýrslunnar voru þær að miðað við almennan vöxt í raforkunotkun hér á landi þurfi mjög fljótlega að ráðast í frekari raforkuframleiðslu til að mæta þörfinni. Þá var lagt til að mynduð yrði langtímastefna í orkumálum, bæði varðandi virkjanakosti, framleiðslu og flutning. Skýrsluhöfundar telja einnig mikilvægt að smásala rafmagns til minni fyrirtækja og almennings sé boðin upp og gerður langtímasamningur í ætt við stóriðjusamninga til að koma í veg fyrir mikla verðkippi og að þessir aðilar verði undir ef til orkuskorts kemur.

„Í takt við þann raunveruleika sem við búum við“

Guðni segir að Orkustofnun og fyrirtækin tvö hafi viljað fá greiningu á stöðunni í dag frá óháðum erlendum aðila. „Þetta gefur okkur byrjunarreit hér innanlands,“ segir hann og bætir við að hann hafi að mestu leyti verið sammála niðurstöðum skýrslunnar. „Þetta er í takt við þann raunveruleika sem við búum við.“

Hann tekur þó fram að varðandi uppboðið á smásölurafmagni telji hann vænlegra að setja kvaðir á orkufyrirtækin um að ákveðinn hluti framleiðslu þeirra sé til smásölu en að horfa til uppboðsfyrirkomulagsins.

Ekki hægt að treysta á öryggi á smásölumarkaði til lengdar

Bendir Guðni á að ekki sé hægt að treysta til langs tíma á að fyrirtæki eins og Landsvirkjun og OR sýni þá samfélagslegu ábyrgð sem þau hafi hingað til sýnt varðandi orkuverð á smásölumarkaði ef það komi til hamfara á borð við eldgos eða annað sem geti haft mikil áhrif á framleiðslu fyrirtækjanna. Þá komi til þess að fyrirtækin þurfi að uppfylla stóriðjusamningana og smásala og þar af leiðandi verð á þeim markaði geti orðið illa úti.

Guðni segir að það hafi einnig verið mikilvægt að fá óháðan aðila til að gera greiningu á möguleikum um uppbyggingu flutningskerfisins, en meðal annars hefur verið tekist á um hvort reisa eigi raflínur yfir hálendið eða bæta það um allt land. Slíkt er talið nauðsynlegt til að tengja betur saman núverandi „eyjasvæði“ í raforkukerfinu hér á landi.

Komin að mörkunum

Ástandið á raforkumarkaðinum er í dag að sögn Guðna allt annað heldur en það var áður fyrr. Segir hann að þetta sjáist meðal annars á því að bæði sé aukin eftirspurn hjá stóriðjunni og utan hennar. Áður fyrr hafi ríkið verið með reglulegar sendinefndir sem fóru um heiminn í leit að kaupendum að raforkunni, en í dag sé öldin önnur. Fyrirtæki bíði í röðum, bæði stærri og minni, og ekki sé nægjanlegt framboð. „Við erum komin að mörkunum að þú getir ekki keypt meira rafmagn þótt þú sért með meiri peninga, það er ekki meira rafmagn,“ segir Guðni.

Segir hann að þetta sé orðið vandamál í dag, ekki fáist einu sinni tilboð í rafmagn til að mæta orkutapi sem verði í flutningi Landsnets. Enn verði þó hægt að leysa þetta vandamál í nokkur ár í viðbót, en að hættan á stærri vandamálum í kerfinu aukist jafnt og þétt.

Nýtt skeið raforkusölu

Sagði Guðni á fundinum að orkuskorturinn væri farinn að hamla atvinnuuppbyggingu víða um land og þá væri hann ekki að tala um stóriðju. „Öll þessi merki segja okkur að við erum að komast á nýtt skeið raforkusölu,“ segir Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert