Hæstiréttur staðfestir gæsluvarðhald

Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði manninn í áframhaldandi tveggja vikna gæsluvarðhald á …
Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði manninn í áframhaldandi tveggja vikna gæsluvarðhald á fimmtudag. Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð í dag. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur staðfest tveggja vikna gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir grænlenskum skipverja sem er grunaður um að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana í síðasta mánuði. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Maðurinn var handtekinn ásamt öðrum manni um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq 18. janúar. Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði mennina í tveggja vikna gæsluvarðhald 19. janúar.

Öðrum mannanna var svo sleppt úr haldi í síðustu viku en Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði hinn manninn í áframhaldandi tveggja vikna gæsluvarðhald á fimmtudag. Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð í dag.

Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er enn í fullum gangi. Í gær greindi RÚV frá því að dánarorsök Birnu Brjánsdóttur hafi verið drukknun. Einnig voru á henni áverkar sem benda til að þrengt hafi verið að hálsi hennar. 

Lokaniðurstöðu úr krufningu á líki Birnu er enn beðið, en í frásögn RÚV sagði að lögreglan væri viss um dánarorsökina og lokaniðurstaðan muni ekki breyta því mati.

Líklegt þykir að Birna hafi verið beitt ofbeldi inni í bílaleigubíl, sem Grænlendingur sem situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins hafði á leigu, en lögregla telur ólíklegt að vopni hafi verið beitt. Blóð úr Birnu fannst í bílnum og er það vísbending um að ráðist hafi verið á hana þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert