Vill stóraukið eftirlit á þjóðvegum

Lögreglubíll á ferð um landið.
Lögreglubíll á ferð um landið. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Víðir Reynisson, verkefnastjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi og fulltrúi Almannavarna, segir að þjóðvegirnir séu hættulegasti ferðamannastaður landsins og margt þurfi að bæta til að draga úr umferðarslysum ferðamanna.

220 erlendir ferðamenn slösuðust í umferðinni hér á landi í fyrra. Þarf af biðu tveir bana, að því er kom fram í tölum Samgöngustofu á fundi Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka ferðaþjónustunnar í morgun. Fjallað var um ástand vegakerfisins, umferðaröryggis og samfélagslegan kostnað og var Víðir einn af þeim sem stigu á stokk.

Bílum ekið um Hellisheiði.
Bílum ekið um Hellisheiði. mbl.is/Rax

Skammtíma- og langtímaverkefni

Víðir bendir á í samtali við mbl.is að alvarlegustu slysin verði á þjóðvegum landsins og horfa þurfi á nokkur atriði, bæði skammtíma- og langtímaverkefni, til að fækka slysum.

Á meðal langtímaverkefna eru uppbygging vega og fækkun einbreiðra brúa, sem kostar mikla fjármuni og tekur tíma.

„Hitt sem þarf að gera er að stórauka verkefni eins og fræðslu til ökumanna og ferðamanna, auknar merkingar og viðvaranir við hættulega staði, aukin vetrarþjónusta Vegagerðarinnar og einnig þarf að stórauka eftirlit lögreglunnar á þjóðveginum, sérstaklega í dreifbýlinu,“ segir Víðir og telur þetta á meðal skammtímaverkefna.

Víðir Reynisson vill að eftirlit í umferðinni verði aukið á …
Víðir Reynisson vill að eftirlit í umferðinni verði aukið á þjóðvegum landsins. mbl.is

Lögreglubílum ekið minna en áður

Hann nefnir að á síðasta ári hafi verið farið í átaksverkefni í uppsveitum Árnessýslu og Öræfunum sem hafi skilað sér í færri slysum á því því svæði.

Fara þarf í fleiri slík verkefni að hans mati og efla eftirlitið í umferðinni, þar á meðal á milli Hvolsvallar og Víkur í Mýrdal, á svæðum á Snæfellsnesi, Norðurlandi eystra, Austurlandi og í raun í flestum landshlutum.

Hann tekur þó fram að fjárveitingar til lögreglunnar síðustu ár hafi takmarkað getuna til að sinna eftirliti og nærtækast sé að horfa á tölur lögregluyfirvalda um að lögreglubílum sé ekið mun minna en áður.

Flutningabíll á ferð um Holtavörðuheiði.
Flutningabíll á ferð um Holtavörðuheiði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Margfaldur fjöldi ferðamanna

„Það er gríðarlega mikilvægt að menn fari að horfa á að við erum að fara að taka á móti 2,5 milljónum erlendra ferðamanna á þessu ári. Ef spár Isavia um fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll næstu árin stenst erum við að horfa á þessar tölur margfaldast á ekki svo mörgum árum,“ útskýrir Víðir og segir að nauðsynlegt sé að horfa bæði til langtíma- og skammtímalausna.

Markmið um ásættanlega áhættu

„Það eru engar töfralausnir en það er fullt af leiðum. Það væri skynsamlegt að nálgast þessa hluti eins og með snjóflóðin 1995. Þá settum við okkur markmið um hver væri ásættanleg áhætta í umferðinni og í kringum ferðaþjónustuna. Við eigum ekki að sætta okkur við annað en að ná þeim markmiðum með öllum tiltækum ráðum.“

Spurður út í ástand vega á landinu segir Víðir að þeir séu margir hverjir ekki góðu ásigkomulagi „Það kom skýrt fram hjá samgönguráðherra og vegamálastjóra á fundinum að þeir hafa mikinn metnað til að bæta verulega úr. En þar erum við að tala um upphæðir sem eru í milljörðum og menn þurfa að forgangsraða til að finna út hvað er ásættanlegast í þeim efnum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert