Börn voru bitin, lamin og bundin

Vistheimilanefnd er hún kynnti skýrslu sína um Kópavogshæli.
Vistheimilanefnd er hún kynnti skýrslu sína um Kópavogshæli. mbl.is/Golli

Jafnt og þétt, nánast allan starfstíma Kópavogshælis var að finna í sjúkraskrám þess lýsingar á ofbeldisfullri hegðun annars vistfólks sem bitnaði á börnum. Í sumum tilvikum voru þau sem ollu áverkum á barnsaldri en í öðrum tilvikum voru þau fullorðin.

Þetta kemur fram í skýrslu vistheimilanefndar um vistun barna á Kópavogshæli á árunum 1953 til 1993. Þar er kafli um líkamlegt ofbeldi í sjúkraskýrslum en í skýrslu vistheimilanefndar kemur fram að börn hafi verið vistuð á fullorðinsdeildum. 

Í færslum um fullorðinsdeildir kemur þetta meðal annars fram:

„X tekur brjálæðisköst og ræðst á félaga sína, erfitt að hafa með hinum drengjunum því X kastar t.d. í þá grjóti“

„X á til að stríða strákunum og jafnvel pína þá þegar hann heldur að enginn sjái til“

„Y var öll blóðug og stokkbólgin um nefið eftir að X hafði barið hana kvöldið áður“

„X brotnaði á upphandlegg, hefur annað hvort dottið eða verið hrint“

„X á til að lúskra óþyrmilega á þeim sem ekki eru tilkippilegir eða kvarta undan X“

„X kveikti í fötum Y sem fékk annars stigs bruna á bakið“

„X braut 2 framtennur úr Y“

„Y bitinn af X í neðri vörina, fékk djúpt sár og saumuð fimm spor“

Í færslum um barnadeildir kemur þetta meðal annars fram:

„Y fékk högg á auga, bólginn og rauður, fór á Landakot fyrst og fremst til að skoða augað og vernda hann fyrir félögum hans á Kópavogshæli um tíma, sem eru nokkuð harðleiknir við hann“

„Borið á að X hafi tekið börn afsíðis lamið þau og klipið“

„X hættir að bíta húsgögn og fer að bíta börnin í staðinn“

„X mjög æst og pínir þá yngri börnin, mjög erfið og mjög vond við krakkana“

„Y fékk glóðarauga á deild, ekki hægt að láta hann þangað því hann kemur alltaf slasaður til baka“

Húsnæði gamla Kópavogshælis.
Húsnæði gamla Kópavogshælis. mbl.is/Golli

Börn bundin eða fjötruð

Í sjúkraskrám mátti einnig finna færslur um líkamlega valdbeitingu sem fólst í að börn voru bundin eða fjötruð.

Nefndin nefnir nokkur dæmi:

„Árið 1965 sagði um X, 4 ára, að ekki mætti líta af X nema X væri bundin.“

„Árið 1965 var færsla um X, 6 ára, sem var „oftast hafður í tjóðri og bundinn í rúmið“.

„Árið 1966 var færsla um X, 3 ára, sem komst fram úr rúminu og skreið upp í til annarra barna, „höfum við ekki séð önnur ráð en að binda [X] í rúmið sitt“. Fjórum árum síðar var færsla um að X hefði farið fram og væri ekki lengur bundinn í rúmið. Árið 1967 var sagt að starfsfólk neyddist til að binda X annars klifraði X um allt og tveimur árum síðar var tekið fram að X væri bundinn úti í garði heilu og hálfu dagana.“

„Árið 1982 var færsla um X, 14 ára (vistun 4 ára), sem var einhverfur og þótti erfiður á nóttunni, var „lengst af gripið til þess ráðs að binda [X] niður í rúmið“.

Nefndin bendir einnig á í skýrslunni að í sjúkraskrám mátti finna nokkrar færslur um að börn hefðu verið í göllum sem voru reimaðir að aftan en engar færslur voru um notkun á spennitreyjum.

Í sjúkraskránum var ekki að finna upplýsingar um áverka sem börn hlutu af völdum athafna starfsfólks sem fólust í að slá, hrinda eða sparka. 

Vistheimilanefnd.
Vistheimilanefnd. mbl.is/Golli

Ældi upp mat sínum í áraraðir

Sérstakar spurningar vakna, samkvæmt nefndinni, um hvort aðferðir sem voru notaðar í þjálfunar- eða meðferðarskyni flokkist sem líkamleg valdbeiting gagnvart barni. Svo virðist sem lengst hafi verið gengið í tilfelli vistmanns sem hafði jórtrað og ælt upp mat sínum í áraraðir. Ýmsar aðferðir  voru reyndar til að fá hann til að hætta, allt frá árinu 1976, þegar vistmaðurinn var 11 ára, og fram til ársins 1983.

Meðferðinni var lýst þannig:

„Í fyrstu var munnörvun og sérstök mötun reynd, án árangurs. Síðan var reynt að refsa fyrir þetta atferli, fyrst þannig að saltvatni var sprautað upp í X, þá var reynt að kitla X og síðar var X spennt á standbretti í láréttri stöðu þannig að andlitið sneri næst gólfi og þegar X kastaði upp var munnur X opnaður svo að uppköstin runnu út úr X í fötu sem var á gólfinu. X áttaði sig fljótlega á því að ef hún kastaði upp yrði hún sett á brettið. Þegar starfsmenn sem unnu að þessu sérstaka verkefni voru viðstaddir kastaði X ekki upp en aðra daga og tíma engu minna en áður. Þá var reynt að þvo X í framan og síðan var sú aðferð reynd að taka varlega fyrir nefið á X og neyddist X þá til að kyngja. Að lokum var reynt að gefa X meiri mat en áður og var matarskammtur X þá tvöfaldaður. Öll þessi meðferð hafði lítið að segja og X hefur haldið áfram uppköstum og jórtri eftir sem áður.“

mbl.is