Fatlað fólk átti að vera með sínum líkum

Húsnæði gamla Kópavogshælis hefur lengi staðið ónotað.
Húsnæði gamla Kópavogshælis hefur lengi staðið ónotað. mbl.is/Golli

Engin þjónusta og engin úrræði voru í boði fyrir fötluð börn og foreldra þeirra á þeim árum sem Kópavogshælið tók til starfa 1952.

„Það var mikið kallað á að það yrðu settar á laggirnar stofnanir fyrir fatlað fólk en ríkjandi hugmyndafræði þá var aðgreining. Fatlað fólk átti að vera með sínum líkum og fá þjónustu fagfólks. Oft voru miklir erfiðleikar á heimilum með að annast fötluð börn, sérstaklega þar sem fólk átti líka miklu fleiri börn en í dag. Þá var oft ekkert annað í boði en senda barnið í burtu, foreldrar gátu ekki annað eða töldu sig vera að gera það besta fyrir barnið eða þau voru hvött til þess af fagfólki. Svo áttu sum börn fáa eða enga að og þá þurfti að koma þeim í vistun,“ segir Rannveig Traustadóttir, prófessor í fötlunarfræðum og nefndarmaður í vistheimilanefnd.

Rannveig Traustadóttir.
Rannveig Traustadóttir. Ljósmynd/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Rannveig segir niðurstöðu skýrslunnar ekki hafa komið sér á óvart því það sama hafi gerst með svipaðar stofnanir úti um allan heim á þessum tíma. „Kópavogshælið verður fljótt yfirfullt, húsnæðið er lélegt, of lítið af fagfólki og fátt starfsfólk. Þetta verður geymslustaður og afleiðing þess er ofbeldi. Þarna var lokaður inni hópur fólks sem hafði lítið við að vera og sýndi oft af sér erfiða hegðun sem tekið var á með krafti sem veldur enn meiri erfiðleikum og neikvæð þróun fer í gang. Ofbeldið var líka á meðal vistfólks en það sem var langalvarlegast var mjög alvarleg vanræksla,“ segir Rannveig.

Aðstandendur vissu oft mjög lítið um hvað gekk á innan hælisins enda þeim ráðlagt að vera ekki að heimsækja sitt fólk of mikið.

„Á þessum tíma voru miklu háleitari markmið, skuldbindingar og lög, en starfið var alls ekki í takt við það eða þá þekkingu sem var fyrir hendi og þróaðist á þessum tíma. Það var mikið gap þarna á milli og það er enn í dag gap á milli þeirra háleitu markmiða sem við setjum okkur í lögum, stefnumótun og alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum. Það er mikið gap á milli þess og daglegs lífs margs fatlaðs fólks í dag og þeirrar þjónustu sem er veitt, við búum við samskonar gap og áður þótt aðstæður séu allt aðrar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert