Maður fannst látinn við Heiðarveg á Selfossi

Búið var að girða lóðina af.
Búið var að girða lóðina af. mbl.is/Sigmundur

Maður fannst látinn við Heiðarveg á Selfossi um hálfþrjúleytið í dag. Lögreglan á Selfossi var með töluverðan viðbúnað vegna málsins og var Heiðarvegi lokað um tíma, en maðurinn fannst látinn á ónotaðri lóð við götuna.

Sjúkrabíll  var sendur á staðinn og eru tveir lögreglubílar og fjöldi lögreglumanna enn á vettvangi. Lögregla verst allra frétta að svo stöddu, en staðfesti þó við fréttaritara mbl.is að maður hefði fundist látinn á lóðinni.

Heiðarvegur hefur nú verið opnuð á ný, en rannsókn málsins er enn í fullum gangi. Samkvæmt heimildum mbl.is er þó ekki talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.

Uppfært: 15:33

Í tilkynningu sem lögreglan á Selfossi sendi frá sér segir að líkið sé talið vera af erlendum aðila búsettum á Selfossi.

Vettvangur verði rannsakaður með aðstoð tæknideildar lögreglu eins og venja er þegar líkamsleifar finnast á víðavangi, en ljóst er að dánarorsök mun ekki liggja fyrir fyrr en að lokinni krufningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert