Nefndin ekki með fleiri mál til skoðunar

Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í fjölskyldu- og erfðarétti við lagadeild Háskóla …
Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í fjölskyldu- og erfðarétti við lagadeild Háskóla Íslands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ekki eru fleiri verkefni á borði vistheimilanefndar nú þegar skýrslu um Kópavogshælið er lokið. Sú nefnd var sérstaklega skipuð 2012 til að rannsaka vistun og aðbúnað barna með fötlun á opinberum stofnunum. Fyrri vistheimilanefnd starfaði frá 2007 til 2011 og skilaði skýrslum, m.a. um Breiðavík, Heyrnleysingjaskólann og Unglingaheimili ríkisins.

Hrefna Friðriksdóttir, formaður vistheimilanefndar, segir að nefndin leggi til í skýrslunni að skoðað verði til hlítar að reynt verði að finna einfaldari, viðaminni og fljótvirkari leið til að vinna slík mál. En með þeim skýrslum sem þegar hafa verið unnar hafi skapast grundvöllur til að taka með aðgengilegri og einfaldari hætti en áður afstöðu til erinda frá þeim einstaklingum sem telja sig hafa orðið fyrir illri meðferð og ofbeldi.

„Þá er hugsunin að búið verði að fá nokkuð glögga mynd af því hvaða reglur giltu og hvað var mest áberandi í rekstri svona stofnana þá sé óhætt að beina athyglinni frekar að einhvers konar uppgjöri við þetta fólk sem varð fyrir þessu,“ segir Hrefna, en fyrri vistheimilanefnd var einnig með svipaðar tillögur. „Dómsmálaráðuneytið þarf að taka þessa tillögu til skoðunar; á að fara þessa sömu leið aftur og fela vistheimilanefnd að taka málið eða fara einfaldari leið? Við erum komin langt á veg í þessu fortíðaruppgjöri og við þurfum að klára það, a.m.k. gagnvart börnum sem voru vistuð á sambærulegum tíma á sambærilegum stofnunum – það er auðvitað mjög eðlileg að það sé gert upp við það fólk með einhverjum hætti,“ segir Hrefna.

Í skýrslunni eru nefndar nokkrar stofnanir sem voru reknar fyrir fólk með þroskahömlum á sama tíma og Kópavogshælið sem mætti taka til skoðunar. Eru það m.a. Sólheimar í Grímsnesi, Kleppjárnsreykir í Borgarfirði, Tjaldanes í Mosfellsbæ og Sólborg á Akureyri. Þykir nefndinni þær eiga margt sammerkt með Kópavogshæli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert