Róbert og Árni sýknaðir í Hæstarétti

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur sýknað Róbert Wessman, Árna Harðarson og Salt Investments af kröfu Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem krafðist skaðabóta úr hendi þeirra. Björgólfur byggði kröfu sína á því að hann hefði orðið fyrir tjóni vegna athafna- eða athafnaleysis þeirra. 

Hæstiréttur hefur þar með staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í febrúar 2016.

Hæstiréttur hefur ennfremur dæmt Björgólf til að greiða stefndu, hverjum um sig, samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/RAX

Í reifun dómsins segir, að í september 2007 hafi Björgólfur gengið í sjálfskuldarábyrgð fyrir helming skuldbindinga þýska lyfjafyrirtækisins Mainsee Pharma GmbH samkvæmt lánssamningi við Glitni hf. Í málinu krafðist Björgólfur þess að Árni, Róbert og Salt Investments ehf. yrðu gert að greiða sér óskipt aðallega 2.000.000 evrur, en til vara lægri fjárhæð.

Reisti hann kröfur sínar á því að Árni og Róbert hefðu í desember 2007 án umboðs og heimildar látið millifæra 4.000.000 evrur í eigu Mainsee Pharma GmbH af reikningi Actavis Group hf. inn á reikning Salt Investments, sem var að mestu í eigu Róberts, og nýtt í eigin þágu.

Taldi Björgólfur að vegna vanskila á greiðslum af láni Mainsee Pharma GmbH hefði krafa Glitnis á hendur sér vegna ábyrgðarinnar verið 2.000.000 evrum hærri en annars hefði orðið sökum ólögmætrar og saknæmrar háttsemi Árna og Róberts.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að greiðsla Mainsee Pharma GmbH til Actavis Group í september 2007 hefði falið í sér lán til hins síðarnefnda félags. Að því virtu og með vísan til þess að skort hefði samþykki framkvæmdastjóra Mainsee Pharma GmbH til millifærslu fjárhæðarinnar frá Actavis Group til Salt Investments var litið svo á að ráðstöfunin hefði verið ólögmæt á sínum tíma.

Á hinn bóginn hefði Mainsee Pharma GmbH með lánssamningi árið 2010 staðfest að Salt Investments hefði yfirtekið lánið sem Actavis Group hafði upphaflega verið veitt. Í samningnum hefði í raun falist skuldbindandi samþykki Mainsee Pharma GmbH sem lánveitanda við því að Salt Investments yrði fyrir skuldskeytingu nýr skuldari að láninu í stað Actavis Group, en með þessu hefði brostið grundvöll fyrir því að Björgólfur gæti krafist skaðabóta vegna ráðstöfunar fjárins til Salt Investments.

Voru Árni, Róbert og Salt Investments því sýknuð í málinu.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert