„Ég vissi ekki að lífið gæti verið öðruvísi“

Haraldur Ólafsson. Árið 1959 var hann þriggja ára og þá …
Haraldur Ólafsson. Árið 1959 var hann þriggja ára og þá var hann vistaður á Kópavogshæli sem átti eftir að vera heimili hans næstu 22 árin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var oft hræddur þegar fólkið öskraði eða barði í veggina. Ég veit að það var vegna þess að þeim leið illa, en ég var samt hræddur. Ég var líka hræddur þegar starfsfólkið þurfti að henda fólkinu í gólfið. Ég man líka eftir sellunum, herbergjunum sem sumir voru lokaðir inni í. En ég sagði engum frá að mér liði illa, ég vissi að maður átti ekki að tala um hvernig manni leið, yfirmennirnir á Kópavogshæli höfðu sagt það. Ég vissi að það myndi enginn hlusta á mig, að það myndi enginn hugga mig.“

Þetta segir Haraldur Ólafsson. Árið 1959 var hann þriggja ára og þá var hann vistaður á Kópavogshæli sem átti eftir að vera heimili hans næstu 22 árin. Hann er spastískur á þann hátt að hann hefur ekki fullan mátt í útlimum og hefur ekki fulla stjórn á hreyfingum. Vegna þeirrar fötlunar var hann framan af talinn greindarskertur, þó engar greiningar eða prófanir lægju fyrir sem staðfestu það. Það var ekki fyrr en á unglingsárum að hið gagnstæða kom í ljós og þá fyrst settist Haraldur á skólabekk, lærði að lesa og lauk grunnskólaprófi. Síðar stundaði hann nám í rafvirkjun í Iðnskólanum og vinnur nú að ýmiss konar hönnun og uppfinningum í samstarfi við Tækniskólann í Reykjavík.

Haraldur Ólafsson bjó á Kópavogshælinu í 22 ár.
Haraldur Ólafsson bjó á Kópavogshælinu í 22 ár.

„Mamma dó þegar ég var þriggja ára. Ég gat ekki farið til pabba, hann bjó með annarri konu og átti fjölskyldu. Þannig að ég fór á Kópavogshæli,“ segir Haraldur. „Það var ekki vitað hvernig fötlun ég var með og ég veit ekki til þess að það hafi verið athugað þegar ég var lítill.“

Hrefna Haraldsdóttir, þroskaþjálfi og vinkona Haraldar, er viðstödd viðtalið og skýtur inn í að ef hann hefði ekki verið fatlaður, þá hefði hann að öllum líkindum farið á fósturheimili eða á einhver þeirra heimila fyrir börn sem þá voru rekin af ríkinu. „Hann var á Kópavogshæli af tveimur ástæðum; líkamleg fötlun og erfiðar félagslegar aðstæður,“ segir Hrefna. „En það lá ekkert fyrir um andlega fötlun eða greindarskerðingu, það var bara gert ráð fyrir því.“

„Ég bara skreið“

Þegar Haraldur flutti á Kópavogshæli var þar engin barnadeild og yngri börnin voru vistuð á kvennadeildinni og þau eldri á karladeildinni. Hann var því settur á kvennadeildina og deildi herbergi fyrstu árin með lítilli stúlku. Vegna plássleysis voru þau í nokkur ár látin vera í lyfjaherbergi deildarinnar, þar sem lyf stóðu í hillum og ýmislegt annað var þar einnig geymt. „Ég man fyrst eftir mér þegar ég var sex ára. Þá var ég settur á þríhjól. Það er góð minning. Fram að því skreið ég um allt, ég gat ekki staðið í fæturna en þegar ég fékk að nota hjólið komst ég miklu hraðar.“

Frá Kópavogshæli.
Frá Kópavogshæli.

Haraldur hafði ekki nægilegan mátt í fótunum til að geta gengið. Hann fékk engin hjálpartæki, hvorki hækjur né hjólastól og hvorki sjúkraþjálfun né meðferð af neinu tagi. „Ég fékk hækjur þegar ég var svona 18-20 ára,“ segir hann. Hvernig komstu leiðar þinnar fram að því? „Ég bara skreið.“

Hrefna skýtur inn í að buxnahné Haraldar hafi heldur betur fengið að kenna á því. „Við settum leðurbætur á buxurnar þegar þú varst kominn í gegn,“ minnir hún hann á.

Haraldur segist geta staðfest margt af því sem fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga um aðbúnað barna á Kópavogshæli eftir að skýrsla vistheimilanefndar um vistun barna á Kópavogshæli kom út. „Mér leið oft illa inni í húsinu, það voru oft mikil læti þar. Mig langaði oft til að komast út, að fara eitthvað annað. Stundum var fólkið sett í spennitreyju, en ég sá aldrei barn í spennitreyju. Oft leið börnum illa, stundum voru þau pissublaut mjög lengi. Það skipti enginn á þeim, það var ekkert starfsfóllk til að gera það. Oft voru stórir krakkar, sem ekki gátu farið sjálfir á klósettið, bæði búnir að pissa og kúka á sig og voru lengi með það í buxunum.“

Frá Kópavogshæli.
Frá Kópavogshæli.

Haraldur átti góða að sem heimsóttu hann reglulega. Faðir hans kom oft og föðursystir hans var tíður gestur. „Sunnudagur var heimsóknardagur og þá var ég alltaf settur í sparifötin. Það fannst mér ekkert sérlega skemmtilegt. Margir krakkar fengu engar heimsóknir. Það var eins og þau ættu enga fjölskyldu.“

Allir héldu að ég væri hálfviti

Þegar Haraldur var 15 ára kom kennari til starfa á Kópavogshæli. Það var Einar Hólm Ólafsson, sem síðar varð skólastjóri Öskjuhlíðarskóla. Hann breytti lífi Haraldar, sem fram að því hafði ekki fengið neina formlega fræðslu eða kennslu af neinu tagi. Enginn hafði reynt að kenna honum að lesa eða reikna fyrr en Einar kom til sögunnar. „Fyrst kenndi hann mér handavinnu. Síðan kenndi hann mér að lesa.“ Af hverju varstu ekki búinn að læra það fyrr? „Enginn reyndi það. Allir héldu að ég gæti ekki lært neitt, allir héldu að ég væri hálfviti.“ Blaðamaður hváir við orðanotkunina, en Haraldur útskýrir að þetta orð hafi gjarnan verið notað til að lýsa honum og fötlun hans.

Haraldur Ólafsson.
Haraldur Ólafsson.

„Einar áttaði sig á því hvað bjó í Halla og barðist fyrir því að hann fengi að koma í Öskjuhlíðarskóla,“ segir Hrefna. „Það var heilmikil barátta, fólk hélt að hann ætti ekkert erindi þangað. Það tókst að lokum og þá var hann orðinn 18 ára.“ Haraldur stundaði síðan nám þar og lauk svo grunnskólanámi frá Réttarholtsskóla, þá kominn langt yfir tvítugt.

Haraldur flutti af Kópavogshæli þegar hann var 25 ára og fór þá fyrst á Reykjalund og síðan í sambýli fyrir fatlað fólk. Nú býr hann einn, en fær stuðning frá Félagsþjónustunni í Hafnarfirði. Hann gekk lengi við tvær hækjur, en hefur verið í hjólastól undanfarin ár eftir beinbrot. Hann tók bílpróf fyrir um 30 árum og það breytti miklu í lífi hans. „Það átti ekki að leyfa mér að taka bílprófið. Núna fer ég út um allt á sérbúnum bíl.“

Þegar Landssamtökin Þroskahjálp urðu 40 ára í fyrra var tímamótunum m.a. fagnað með því að gera heimildarmynd um líf og störf Haraldar. Myndin heitir Halli sigurvegari og var gerð af Páli Kristni Pálssyni. Þessa dagana vinnur Haraldur að hönnun og smíði rafknúins þríhjóls sem hann hyggst, a.m.k. til að byrja með, hafa til einkanota. Hann hefur vinnuaðstöðu í Tækniskólanum í Reykjavík og hefur áður hannað og smíðað súrefnisskynjara til notkunar í bílum. Þegar þú varst lítill, datt þér einhvern tímann í hug að þú myndir hanna og smíða hluti þegar þú yrðir fullorðinn? „Nei, mér datt það aldrei í hug.“

Haraldur Ólafsson.
Haraldur Ólafsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 Þýðir ekkert að vera reiður

Eftir að áðurnefnd skýrsla vistheimilanefndar kom út fyrr í vikunni hefur verið talsverð umræða og reiði í samfélaginu um aðbúnað barnanna. Haraldur segist skilja þau viðbrögð. „Mér finnst skipta máli að fólk viti hvernig þetta var. En ég bjó þarna og vissi ekki að lífið gæti verið öðruvísi fyrr en ég flutti annað.“ Finnst þér að það hafi verið vel hugsað um þig á Kópavogshæli? „Nei. Ekki nógu vel. Ég hefði viljað fara í skóla eins og aðrir krakkar.“ Verðurðu reiður þegar þú hugsar til baka? „Nei, ég hugsa ekki þannig. Mér finnst erfitt að hugsa til baka, en það þýðir ekkert að vera reiður. Þetta gerðist og ég verð að taka því.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert