„Sanngirnisbætur hneykslanlega lágar“

Kópavogshæli, kvennadeildin reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar er …
Kópavogshæli, kvennadeildin reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar er nú rekin endurhæfingarstöð fyrir fatlaða. Karladeildin sem reist var um 1950 var í sams konar byggingu vestan við kvennadeildina. Karladeildin var rifin fyrir nokkrum árum og rústirnar eru þaktar svartri möl. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samtök vistheimilabarna segja augljóst að brotin voru mannréttindi á öllum þeim sem misþyrmt var á vistheimilum á vegum ríkisins og sveitarfélaga og segja að sanngirnisbætur séu hneykslanlega lágar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu Samtaka vistheimilabarna.

„SVB – Samtök vistheimilabarna votta vistmönnum Kópavogshælisins og öllum aðstandendum þeirra innilegrar samúðar. Það sló óhug að öllum félagsmönnum SVB þegar fréttir af þeirri ómannúðlegu meðferð, sem fram fór á vistmönnum Kópavogshælisins á árunum 1952 – 1993, bárust þeim í fjölmiðlum. Lýsingar fjölmiðla á hryllilegum pyntingaaðferðum sem starfsmenn beittu gegn vistmönnum Kópavogshælisins ýfðu upp óhuggulegar minningar um dvöl allra þeirra fjölmörgu einstaklinga sem fluttir voru á hin ýmsu vistheimili landsins á árunum 1950 – 1990 og upp komu í eftirminnilegri umfjöllun RÚV á meðferð Breiðavíkurdrengjanna fyrir nokkrum árum.

Mannréttindabrot: Ísland var á þessum árum orðið aðili að mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, það er því augljóst að brotin voru mannréttindi á öllum þeim sem misþyrmt var á þessum árum á vistheimilum landsins á vegum ríkisins og sveitarfélaga, og það sem ekki má gleyma í umræðunni er að mannréttindabrot fyrnast ekki, en það virðist þó gleymast í eftirmeðferð þessara mála, eins og t.d. í bótum til þolenda, því hneykslanlega lágar sanngirnisbætur hafa verið ákveðnar af ríkinu einhliða til handa þolendum í SVB – Samtökum vistheimilabarna.

Tengiliður vistheimila: Samkvæmt lauslegri könnun sem gerð var meðal félagsmanna í SVB – samtökum vistheimilabarna varðandi störf Tengiliðs vistheimila kom fram gríðarlega mikil óánægja með vinnuaðferðir Tengiliðsins sem birtist í því að sanngirnisbætur voru að meðaltali um helmingur þeirrar hámarksupphæðar sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir forsætisráðherra ákvað á þeim tíma.

Sanngirnisbætur: SVB – Samtök vistheimilabarna hafa þá ósk í hjarta varðandi ákvörðun sanngirnisbóta til handa vistmönnum Kópavogshælisins að þær verði verulega hærri en hingað til hafa verið ákvarðaðar (eins og t.d. til félagsmanna SVB – vistheimilasamtakanna) og að allir vistmenn Kópavogshælisins fái hæstu sanngirnisbætur greiddar sem eingreiðslu. Einnig er það einlæg ósk SVB að eftirlifandi aðstandendum látinna vistmanna verði einnig greiddar sanngirnisbætur. Það er von SVB að sanngirnisbætur til vistmanna Kópavogshælisins verði með meiri reisn en þær niðurlægjandi sanngirnisbætur sem greiddar voru til félagsmanna SVB – Samtaka vistheimilabarna. Einnig er það von SVB – Samtaka vistheimilabarna að ríkisstjórnin taki til athugunar að sanngirnisbætur verði ákveðnar með sama hætti og gert var t.d. í Noregi á sínum tíma.

Afsökunarbeiðni: Það var mikið og stórt skref sem stigið var af Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á þeim tíma þegar Breiðavíkurmálið kom upp, þegar hún bað opinberlega alla viðkomandi afsökunar á óásættanlegri meðferð á vistmönnum. Það er von SVB – Samtaka vistheimilabarna að forsætisráðherra Bjarni Benediktsson biðji opinberlega alla þolendur, vistmenn Kópavogshælisins og aðstandendur þeirra, afsökunar vegna hræðilegrar meðferðar sem vistmenn Kópavogshælisins máttu þola af hendi starfsmanna.

F.h. SVB – Samtaka vistheimilabarna Jón Magnússon formaður SVB.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert