Starfsfólk glímt við andlega erfiðleika

Kvennadeild Kópavogshælis var reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar …
Kvennadeild Kópavogshælis var reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar er nú rekin endurhæfingarstöð fyrir fatlaða. mbl.is/Ómar Óskarsson

Formaður Samtaka vistheimilabarna segir að fólk sem vann á Kópavogshæli hafi greint frá andlegum erfiðleikum sínum eftir að hafa starfað á stofnuninni.

Hann segir að fjölmargir hafi haft samband við sig, bæði fyrrverandi starfsfólk, aðstandendur og fólk sem vissi af því sem þar fór fram.

„Þetta er þannig mál að þetta rífur upp sárin hjá voðalega mörgum. Maður er búinn að heyra að það sé fólk sem var að vinna þarna sem er í andlegum erfiðleikum. Það eru ekki bara aðstandendur eða þeir sem voru þarna. Þetta teygir sig víða,“ segir Jón Magnússon, formaður Samtaka vistheimilabarna.

Má ekki dragast á langinn

Hann vonast til þess að málið verði klárað í heild sinni sem allra fyrst í stað þess að draga það á langinn, mögulega næstu árin.

„Þetta er mjög erfitt mál fyrir alla aðila. Það er enginn, sama hvort hann er í ráðuneytinu eða með skúringatuskuna, sem vill hafa hlutina svona. Ég held að þetta verði aldrei klárað nema það komi upp sú niðurstaða að sporin hræði. Það verður að klára þessi mál, það má ekki hafa þetta hangandi yfir.“

Jón leggur áherslu á að mannréttindabrot hafi verið framin. „Við erum aðilar að Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og við þurfum að fara eftir honum.“

Hann hefur einnig óskað eftir því lögreglurannsókn fari fram á því sem gerðist, auk þess sem samtökin hafa gagnrýnt lágar sanngirnisbætur. 

Að sögn Jóns á eftir að taka út það sem gerðist á stórum hluta einkaheimila. Ríki og sveitarfélög hafi staðið á bak við þá starfsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert