Andlát: Högna Sigurðardóttir

Högna Sigurðardóttir.
Högna Sigurðardóttir. mbl.is/RAX

Högna Sigurðardóttir arkitekt er látin, 87 ára að aldri.

Högna var fædd í Vestmannaeyjum árið 1929. Árið 1949 hóf hún, fyrst Íslendinga, nám við hinn virta listaskóla Ecole des Beaux Arts í París. Hún útskrifaðist sem arkitekt árið 1960 og hlaut viðurkenningu skólans fyrir lokaverkefni sitt sem tryggði henni starfsréttindi í Frakklandi.

Um líkt leyti lauk hún við teikningar af fyrsta verki sínu, íbúðarhúsi í Vestmannaeyjum. Með því varð hún fyrsta konan í stétt arkitekta til að teikna hús hér á landi. Högna var lengstum búsett í París og starfaði þar sem arkitekt en vann einnig að verkefnum hér á landi.

Strax að loknu námi skipaði Högna sér í framvarðarsveit arkitekta með ný og róttæk viðhorf. Alla tíð síðan hefur nafn hennar tengst hugmyndum um framsækna byggingarlist. Snemma á 7. áratugnum teiknaði hún íbúðarhús í Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ sem þóttu tíðindum sæta í íslenskri byggingarsögu.

Ein af hundrað merkustu byggingunum

Kunnasta verk Högnu hér á landi er einbýlishús við Bakkaflöt í Garðabæ frá árinu 1968. Í því verki vann hún með hugmyndir úr fornri íslenskri húsagerð sem efnivið í framsækinni listsköpun.

Árið 2000 var húsið við Bakkaflöt valið ein af 100 merkustu byggingum 20. aldar í norður- og miðhluta Evrópu, í tengslum við útgáfu alþjóðlegs yfirlitsrits um byggingarlist 20. aldar.

Árið 1992 tók Högna Sigurðardóttir sæti í akademíu franskra arkitekta. Högna var kjörin heiðursélagi Arkitektafélags Íslands árið 2008 og hlaut hún Heiðursorðu Sjónlistar árið 2007 fyrir einstakt framlag sitt til íslenskrar nútímabyggingarlistar.

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert