Fundu sjúkraskrár vistmanna frá Kópavogshæli

Húsnæði gamla Kópavogshælis hefur lengi staðið ónotað.
Húsnæði gamla Kópavogshælis hefur lengi staðið ónotað. mbl.is/Golli

Sjúkraskrár á milli 10 og 20 barna af Kópavogshæli, sem ekki höfðu skilað sér til vistheimilanefndar, voru teknar til í skjalageymslu Landspítalans í dag.

RÚV greindi fyrst frá málinu en samkvæmt upplýsingum mbl.is voru skýrslurnar ekki týndar, heldur reyndist talsvert flókið að finna þær. 

Landspítali fékk lista með nöfnum 48 barna frá vistheimilanefnd í dag þar sem óskað var eftir að athugað væri hvort einhver gögn væru til um þau nöfn. 

Vistheimildanefnd hafði í mars 2013 óskað eftir gögnum frá Kópavogshæli og Landspítali hafði afhent gögn sem merkt voru Kópavogshæli. Þar voru ýmis gögn, sjúkraskrár, dagbækur og fleira. Vistheimilanefnd hafði ekki nafnalista yfir þá sem voru vistaðir á Kópavogshæli.

Nafnalistinn hefur orðið til í vinnslu nefndarinnar en þegar leita á að sjúkraskrám þarf að vera hægt að leita að nafni og fæðingardegi.

Verk nefndarinnar var erfitt vegna þess að ekki voru til almennilegar skrár. Vistheimilanefnd er með 178 nöfn á skrá en ekki er hægt að fullyrða að vistmenn hafi ekki verið fleiri.

mbl.is