Vill að stjórnvöld virði lög um fatlaða

Kolfinna S. Magnúsdóttir og dóttir hennar, Alda Karen Tómasdóttir.
Kolfinna S. Magnúsdóttir og dóttir hennar, Alda Karen Tómasdóttir. mbl.is/Rax

„Ég vil biðla til yfirvalda að skoða þessi mál, einmitt núna þegar stjórnmálamenn virðast viljugir að fara í þennan málaflokk og hlúa betur að málefnum fatlaðra þannig að lögin virki,“ segir Kolfinna S. Magnúsdóttir, móðir Öldu Karenar Tómasdóttur, sem fæddist með Downs-heilkenni.

Kolfinna greindi frá baráttu þeirra við að fá lögbundna grunnþjónustu í viðtali við Morgunblaðið árið 2014.

Stefnir yfirmönnum félagsþjónustu

Hún hefur stefnt yfirmönnum félagsþjónustu Sandgerðis, Garðs og Voga vegna brota á lögum um málefni fatlaðra. Að sögn hennar var brotið gróflega á Öldu þegar hún var þvinguð í alklæðnaði á bað og spúluð þar árið 2012 í Garði. Einnig var hún þjónustulaus í marga mánuði án húsnæðis  sem sveitarfélagið átti ekki tiltækt, auk þess sem félagsþjónustan synjaði Öldu um lögbundna ferðaþjónustu síðdegis og um helgar.

Árið 2014 fluttu þær til Reykjanesbæjar til að tryggja Öldu Karen lögbundna þjónustu.

Lítið þarf að fara úrskeiðis

Kolfinna segir nauðsynlegt að vekja athygli á máli þeirra í kjölfar umræðunnar um Kópavogshæli. Auk þess að skoða betur hvað fór úrskeiðis hér á árum áður vonast hún til þess að yfirvöld átti sig á stöðunni í dag og að vanda þurfi til verka.

„Ég er að benda á hvað í rauninni þarf lítið að fara úrskeiðis til að illa fari. Við brenndum okkur illilega á því. Ég tel að það sé mikið til út af því að sveitarfélagið hafði á þeim tíma hvorki fagkunnáttu né reynslu en þá var málaflokkurinn nýkominn til sveitarfélagsins,“ segir Kolfinna, sem nýlega tjáði sig um málið á vefsíðu Kvennablaðsins.

Öldu Hrönn líður vel í Reykjanesbæ.
Öldu Hrönn líður vel í Reykjanesbæ. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögin túlkuð á ýmsan hátt 

Að sögn Kolfinnu líður Öldu Karen mjög vel í Reykjanesbæ. „Þó svo að sveitarfélagið hafi verið í töluverðum fjárhagslegum vanda virðist það ekki hafa verið látið bitna á grunnþjónustu, að minnsta kosti ekki í tilfelli Öldu. Hún hefur fengið það fé sem er eyrnamerkt henni miðað við fötlunarflokk.“

Lögin um réttindi fatlaðs fólks eru mjög skýr að mati Kolfinnu. Þau hafa aftur á móti verið túlkuð „út og suður“ af þjónustuaðilum og gjarnan brotin „án þess að fatlað fólk hafi tækifæri til að verja sig“.

Neitar að gefast upp 

„Þessi barátta okkar er búin að kosta okkur mikla peninga og orku en ég gefst ekki upp,“ segir hún og kveðst ætla að halda áfram með málið og fara með það fyrir mannréttindadómstóla ef það fer ekki eins og hún vonast eftir.

„Þetta snýst ekki um neinar upphæðir að ráði heldur snýst þetta um að virða lögin í landinu og að þessi hópur fólks geti gengið að því vísu að stjórnvöld fari eftir lögununum sem þau setja sjálf.“

Kvennadeild Kópavogshælis var reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar …
Kvennadeild Kópavogshælis var reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar er nú rekin endurhæfingarstöð fyrir fatlaða. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hágrét vegna frétta af Kópavogshæli

Sjálf segist henni hafa brugðið mjög þegar hún las fréttir um það sem gerðist á Kópavogshæli. „Ég hágrét við að lesa viðtöl við fólk og lýsingarnar. Maður vissi að þetta var gamaldags og það hefði ekki verið hlúð nógu vel að fólki og það hefðu verið gríðarlegir fordómar en ég hafði ekki hugmynd um að þetta hafi verið eins slæmt og hefur komið fram.“

Alda Karen útskrifaðist síðasta vor úr verknámsdeild Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Að sögn Kolfinnu var afar vel staðið að öllu hjá skólanum vegna námsins.

„Það er margt mjög vel gert og við erum komin langt á mörgum sviðum en betur má ef duga skal,“ segir hún og nefnir að fjölbreytni vanti í atvinnu og til náms hjá fötluðum eftir tvítugt, sérstaklega úti á landi. Til dæmis sé símenntun Öldu sótt að hluta til til höfuðborgarsvæðisins.

Partur af litrófinu

Kolfinna vonar að vel sé hlúð að fötluðu fólki víða um land en ímyndar sér að staðan sé mismunandi eftir bæjarfélögum. „Ég vona að fólk þurfi ekki að berjast fyrir stóru sem smáu.“

Hún bætir við að tíðarandinn sé breyttur frá því sem áður var. „Stjórnvöld eru farin að vakna til vitundar um að þessi hópur er bara partur af litrófinu og samfélaginu með sín réttindi. Þau eru ekki að þiggja ölmusu, þau eru ekki byrði,“ greinir hún frá og nefnir í því samhengi að þó nokkur vinna hafi skapast í kringum Öldu, eða samtals fjögur störf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert