Forræðismáli snúið aftur í hérað

Hæstiréttur íslands.
Hæstiréttur íslands. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstiréttur sneri í gær hluta af forræðismáli aftur í hérað en Héraðsdómur Norðurlands eystra hafði áður vísað málinu frá.

Málavextir eru þeir að sóknaraðili krefst þess að honum verði falin stúlku, en hann er líffræðilegur faðir hennar. Hefur stúlkan verið í fóstri síðan frá átta vikna aldri en hún er tæplega fjögurra ára gömul. Móðir stúlkunnar gerði samning um fóstur og gildir hann þar til stúlkan er 18 ára gömul.

Héraðsdómur hafði vísað málinu frá á þeim forsendum að í svona málum sé ávallt hugað að því sem sé barninu fyrir bestu. Dómurinn sá ekki að breytt umgengnisskipan myndi verða henni fyrir bestu og málinu því vísað frá dómi.

Sóknaraðili kærði málið til Hæstaréttar og krafðist þess að Héraðsdómur tæki málið til efnismeðferðar. Móðir barnsins hafði sagt að hún væri ekki tilbúin í móðurhlutverkið og undirritaði yfirlýsingu þess efnis að barnið færi í fóstur til 18 ára aldurs.

Segir í dómi að óumdeilt sé að sóknaraðili lýsti sig andvígan því að barninu yrði ráðstafað í fóstur og á fundi hjá barnaverndarnefnd í mars 2013 kvaðst hann vilja taka barnið að sér með aðstoð móður sinnar. Tveimur dögum síðar var honum tilkynnt með tölvupósti að nefndin hefði komist að þeirri niðurstöðu að það samræmdist best hagsmunum barnsins að senda það í fóstur.

Faðirinn óskaði í kjölfarið eftir umgengni við barnið og var umgengni hans ákveðin þrisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn.  

Hæstiréttur vísaði frá kröfu sóknaraðila um að með dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar sóknaraðila við barnið. Lagt er fyrir héraðsdóm að taka málið að öðru leyti til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert