Hvessir með rigningu á morgun

Hvassast verður syðst síðdegis á morgun.
Hvassast verður syðst síðdegis á morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Fremur hæg austlæg átt verður næstu klukkustundirnar. Þokuloft eða dálítil væta verður sunnan- og austanlands, en annars úrkomulítið. Vaxandi austanátt er með morgninum en þá fer að rigna syðst, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Von er á 10-18 metrum á sekúndu og rigningu víða síðdegis, hvassast syðst, en sums staðar slyddu norðvestanlands. Þá dregur úr vindi sunnan til um kvöldið. Hiti verður 0 til 7 stig, hlýjast við suðurströndina.

Þoka á Hellisheiði

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru vegir greiðfærir á Suðurlandi, en þoka er á Hellisheiði, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.

Hálkublettir og þoka eru á Holtavörðuheiði og hálkublettir á Bröttubrekku og Fróðárheiði. Hálka og hálkublettir eru víðast hvar á fjallvegum á Vestfjörðum.

Vegir eru mikið til auðir á láglendi á Norðurlandi en hálkublettir eru á Vatnsskarði og Öxnadalsheiði – og í Þingeyjarsýslum er allvíða nokkur hálka.

Það er snjóþekja á Vopnafjarðarheiði, hálka á Möðrudalsöræfum en hálkublettir á Fagradal, Fjarðarheiði, Vatnsskarði eystra og Oddsskarði og þar er einnig þoka. Vegir eru þó víðast auðir á Austur- og Suðausturlandi.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert