Í síðasta lagi tilbúnar í lok apríl

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Niðurstöður eiga að liggja fyrir í síðasta lagi í lok apríl varðandi greiningu á fjárhagslegum afleiðingum þess ef gengið yrði að kröfum sjómanna um skattaafslátt af fæðisgjaldi. Þetta kemur fram í tillögu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem var lögð fram á fundi hjá ríkissáttasemjara í gær og mbl.is hefur undir höndum. 

Miðað er við lok apríl þannig að tími gefist til lagabreytinga á yfirstandandi þingi, ef talin er þörf á þeim. 

Ef niðurstöðurnar verða tilbúnar í lok apríl og verkfall sjómanna heldur áfram á meðan þeirri vinnu stendur er ljóst að ekki mun takast að veiða þann loðnukvóta sem veittur hefur verið. Ráðherra tilkynnti í vikunni um að loðnukvótinn yrði 196 þúsund tonn, en hann var aukinn sextánfalt frá því sem gefið hafði verið út í haust.

Tillaga ráðherra: 

„Í tilefni af umræðu sem upp hefur komið í tengslum við kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna um greiðslu fæðiskostnaðar, skattskyldu fæðispeninga og mat á hlunnindum í því sambandi lýsa stjórnvöld sig reiðubúin til þess að fram fari heildstæð greining á því hvernig farið er almennt með fæðiskostnað og greiðslur vegna fæðis í skattalegu tilliti. Slík greining verði unnin í samvinnu við deiluaðila og e.a. önnur samtök launafólks og vinnuveitenda.

Markmið greiningarinnar verði að tryggja áfram einfalda og sanngjarna skattframkvæmd og að jafnræðis sé gætt milli launþega hvað varðar skattalega meðferð greiðslna og hlunninda vegna fæðiskostnaðar

Niðurstöður liggi fyrir eigi síðar en í lok apríl nk., þannig að tími gefist til lagabreytinga á yfirstandandi þingi, ef talin er þörf á þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert