„Alvarlegasta tilfellið“

Það þarf setja meira fé í störf sérfræðiteymisins, að sögn …
Það þarf setja meira fé í störf sérfræðiteymisins, að sögn formanns. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta er alvarlegasta tilfellið og er undantekning,“ segir Sigrún Hjartardóttir um sambýlið á Blönduósi. Hún er formaður sérfræðiteymis, um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk, sem starfar á vegum velferðarráðuneytisins. Sérfræðiteymið tók út starfsemi sambýlisins og veitti því ráðgjöf um hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að íbúar þess væru beittir nauðung. 

„Það hefur verið mannekla á sambýlinu. Það eru sömu rökin og voru notuð til dæmis á Kópavogshælinu. Það gengur ekki í dag í nútímasamfélagi. Sveitarfélaginu ber skylda til að veita þessu fólki lögbundna þjónustu,” segir Sigrún. Hún bendir einnig á að á þessu sambýli sé samsetning íbúanna afar óheppileg. Einnig sé einkarýmið sem þeim er skapað of lítið. „Sambýli eins og þetta á ekki að vera til,“ segir Sigrún og vísar í húsnæðið. 

Fólk vill ekki brjóta lögin og vill ráðgjöf, segir formaður …
Fólk vill ekki brjóta lögin og vill ráðgjöf, segir formaður sérfræðiteymis á vegum velferðarráðuneytisins. mblis/RAX

Fræða um nauðung

Ráðgjöf sérfræðiteymisins hefur yfirleitt orðið til þess að margt hafi breyst til batnaðar á þeim heimilum þar sem fólk með fatlanir býr, að sögn Sigrúnar. Hún segir ráðgjöfina meðal annars felast í því að útskýra hvað nauðung er og veita ráð um hvernig hægt er að komast hjá því að beita þeim aðferðum.

Dæmi um nauðung er til dæmis að hefta aðgengi fólks, að mat, að ákveðnu rými, skerða ferðafrelsi þess og þar fram eftir götunum. „Það má ekki beita fatlað fólk nauðung nema með undanþágu og færa verður rök fyrir því,“ segir Sigrún. 

Ef nauðung er beitt á heimili fólks með fatlanir þarf að sækja um undanþágu fyrir slíkt til nefndar um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar. Það er ekki á könnu sérfræðiteymisins. 

Sambýlið á Blönduósi.
Sambýlið á Blönduósi. mbl.is/Jón Sigurðsson

Kanna hvort ráðleggingum sé fylgt

Á næstunni tekur teymið út þær breytingar sem þarf að gera á sambýlinu til að draga úr nauðung íbúanna. Samkvæmt lögum er bannað að beita nauðung í samskiptum við fatlað fólk nema undanþága sé veitt. Sigrún bendir á að í sumum tilfellum er það nauðsynlegt þegar einstaklingur sýnir af sér sjálfskaðandi hegðun sem ekki er unnt að koma í veg fyrir með öðrum hætti. 

Sambýlið á Blönduósi fékk sex mánuði til að gera aðkallandi breytingar sem er brátt liðinn. „Við munum brátt hafa samband og kanna hvernig hefur gengið að fara eftir ráðleggingunum,” segir Sigrún. Sérfræðiteymið fylgir því eftir hvort farið hafi verið eftir ráðgjöfinni.

„Ótækt að geta ekki brugðist strax við“

Hins vegar er það í höndum sambýlisins eða til dæmis sveitarfélagsins að óska eftir ráðgjöf sérfræðiteymisins sem starfar á vegum velferðarráðuneytisins. Lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk tóku gildi árið 2011.

Hins vegar tók umrætt sérfræðiteymi, sem er skipað samkvæmt fyrrgreindum lögum, ekki til starfa fyrr en árið 2012. Ástæðan fyrir því er sú að ekki var lagt nægilegt fé í málaflokkinn að sögn Sigrúnar. 

Á þessum rúmum fjórum árum hafa 148 mál borist teyminu eða óskir um ráðgjöf. Af þeim hafa 53 mál verið afgreidd, 60 mál bíða og 35 mál eru í vinnslu og eitt af þeim er mál sambýlisins á Blönduósi.  

„Fólk leitar til okkar því það vill gera sitt besta og vill ekki brjóta lög,“ segir Sigrún og bætir við: „En við þurfum mun meiri tíma og mannskap til að geta afgreitt mál hraðar. Það er ótækt að geta ekki brugðist strax við.“

Þeir sérfræðingar sem starfa í teyminu starfa allir einnig annars staðar. Hér má sjá starfsmenn sérfræðiteymisins.  

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert