Fjölmennt við útför Ólafar

Útförin fór fram í Dómkirkjunni.
Útförin fór fram í Dómkirkjunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útför Ólafar Nordal, fyrrverandi ráðherra, alþingismanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, fór fram í Dómkirkjunni í Reykjavík í dag. Mikið fjölmenni var við athöfnina sem hófst klukkan eitt.

Séra Sveinn Valgeirsson sá um at­höfn­ina en líkmenn voru Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Jón Gunnarsson samgönguráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingismaður, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, Ingibjörg Jóhannsdóttir, Ögmundur Skarphéðinsson, Marta Nordal og Gunnar Haraldsson.

Félagar í Sjálfstæðisflokknum stóðu heiðursvörð þegar líkkista Ólafar var borin út úr Dómkirkjunni.

Fjölmargir minntust Ólafar í dag í minningargreinum í Morgunblaðinu en Ólöf var vinsæl, þvert á flokka. Samstarfsmenn, kollegar og gamlir vinir minntust hennar af hlýhug og segja hana hafa verið opinskáa, heiðarlega og skemmtilega konu.

Ólöf var 50 ára gömul þegar hún lést eftir erfiða baráttu við krabbamein. Hún lætur eftir sig eiginmann og fjögur börn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert