Reyndi að flýja lögreglu

Lögregla var við eftirlit á Bústaðavegi í tæpa tvo tíma í nótt þar sem kannað var með réttindi og ástand ökumanna. Einn reyndi að aka frá vettvangi og var nærri því búinn að keyra á tvo lögreglumenn. Þá reyndi hann að flýja á hlaupum en var handtekinn og vistaður í fangaklefa.

 Fjórir ökumenn voru  kærðir fyrir akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Einn þeirra er sá sem gistir fangageymslu, samkvæmt dagbók lögreglunnar.

Ölvaður ökumaður var stöðvaður við Skógarsel á fjórða tímanum og einn var stöðvaður fyrir ölvunarakstur á Akureyri í gærkvöldi.

Lögreglan hafði afskipti af manni við Hörpu vegna vörslu fíkniefna skömmu fyrir 23 í gærkvöldi.

Slökkviliðið var kallað út í nótt vegna elds í bíl í Heiðmörk en allt bendir til þess að kveikt hafi verið í bílnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert