Tveir ekki enn með talsmann

Sambýlið á Blönduósi.
Sambýlið á Blönduósi. mbl.is/Jón Sigurðsson

Tveir af fjórum íbúum á sambýlinu á Blönduósi eru ekki með talsmann. Erfiðlega hefur gengið að fá slíkan en samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk sem tóku gildi árið 2012 eiga þeir rétt á persónulegum talsmanni sem er á svæðinu. Allir karlmennirnir eru með greiningu sem þeir fengu þegar þeir voru börn og hafa ekki fengið nýja greiningu.

Þeir eiga allir erfitt með að tjá sig vegna fötlunar sinnar. Íbúarnir voru á Kópavogshæli og á Sólborg áður en þeir komu á Blönduós.  

Vonar að þeir fái talsmann

„Ég vona að umræðan og aðgerðir um að bæta aðbúnað þeirra á sambýlinu verði til þess að þeir fái talsmann og þá virðingu og þjónustu sem þeir eiga skilið,“ segir Guðrún Pálmadóttir, réttindagæslumaður fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra, um íbúana á sambýlinu á Blönduósi. Sérfræðiteymi velferðarráðuneytisins, um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk, gerði alvarlegar athugasemdir við starfsemina á sambýlinu. Nú er unnið að því að fara eftir ráðgjöf sérfræðiteymisins eins og fram kom í frétt mbl.is í gær.

Á næstunni tekur teymið út þær breytingar sem þarf að gera á sambýlinu til að draga úr nauðung íbúanna. Samkvæmt lögum er bannað að beita nauðung í samskiptum við fatlað fólk nema undanþága sé veitt. Sambýlið fékk sex mánuði til að gera aðkallandi breytingar sem eru brátt liðnir.   

Guðrún Pálmadóttir, réttindagæslumaður fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra.
Guðrún Pálmadóttir, réttindagæslumaður fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra.

Ekki einsdæmi að fólk sé með greiningu frá barnsaldri

Spurð hver beri ábyrgð á því að íbúarnir fái nýja greiningu bendir Guðrún á að málið sé ekki einfalt. Hún vísar meðal annars á Greiningar- og ráðgjafarmiðstöð ríkisins. Hún segir það vissulega vandamál að þessir einstaklingar séu ekki með nýja greiningu en sérfræðiþekkingu þurfi til að greina þá.

Hún segir það því miður ekki vera einsdæmi að fatlaðir einstaklingar á svæðinu séu með gamla greiningu. Guðrún er réttindagæslumaður fatlaðs fólks frá Bakkafirði og að miðjum Hrútafirði.

Guðrún tekur fram að nýr forstöðumaður sem hafi tekið við sambýlinu fyrir rúmu ári hafi unnið þrekvirki við að snúa blaðinu við.

Þegar hún tekur við fær hún áfall og opnar málið því hún vill breyta þessu. Ég dáist að hugrekki hennar því það hefur ekki alltaf verið auðvelt og hún hefur mætt mikilli andstöðu meðal starfsmanna með þær breytingar sem hún hefur viljað gera. Það er þöggun sem heldur þessu máli gangandi á þessum tíma,“ segir Guðrún og bendir á að raun megi segja að Austur-Húnavatnssýsla beri meiri ábyrgð á því hvernig í pottinn var búið með því að bæta ekki aðbúnað íbúanna. Skagafjörður tók við mál­efn­um fatlaðs fólks á Norður­landi vestra árið 2016.

Mennirnir sem búa á sambýlinu á Blönduósi eru allir með …
Mennirnir sem búa á sambýlinu á Blönduósi eru allir með greiningu frá því þeir voru börn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sambýlið einangraðist

Guðrún bendir á að þá stöðu sem var og er að hluta til enn þá á sambýlinu megi rekja til fjölmargra þátta. Einn af þeim er þetta form sambýlis þar sem hver og einn er með litið herbergi og þurfi að deila öðru rými sé barn síns tíma. Þetta valdi til dæmis erfiðleikum í samskiptum íbúa sem meðal annars valdi því að starfsmenn sem margir hverjir eru ekki með fagmenntum beiti þvingun og nauðung.

„Sambýlið á Blönduósi er einsdæmi. Það varð einangrað og hefur ekki fylgt þeim breytingum sem hafa verið á þjónustu við fatlað fólk í samfélaginu,“ segir Guðrún og ítrekar að staðan sé ekki með þessum hætti í öðrum búsetuúrræðum. Hins vegar eru alltaf aðstæður sem þarf að laga og það er ekki að ástæðulausu sem fatlað fólk er að sækja rétt sinn, segir Guðrún. 

Hún segist lengi hafa grunað að ekki væri allt með felldu á sambýlinu en erfitt hafi reynst að sannreyna að brotið hafi verið á íbúunum einkum vegna þess að þeir eiga mjög erfitt með að tjá sig. Rúv greindi frá því í gær, samkvæmt skýrslu sérfræðiteymisins,  að starfsmaður hafi beitt vistmann grófu líkamlegu ofbeldi þegar hann ætlaði að ná sér í súkkulaðirúsínur í eldhúsinu með því að berja hann í hnakkann, taka hann hálstaki og snúa honum með afli frá eldhúsborðinu.

„Aðalatriðið er að þeir fái þá virðingu sem þeir eiga skilið,“ segir Guðrún.

Tveir af fjórum íbúum eru ekki með talsmann. Brim á …
Tveir af fjórum íbúum eru ekki með talsmann. Brim á Blönduósi. mbl.is/Jón Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert