Engin tvöföldun en tvö hringtorg á Þingvallavegi

map.is
map.is map.is

Vegagerðin áformar að gera tvö hringtorg á Þingvallavegi í Mosfellsdal til að draga úr umferðarhraða á veginum og þar með auka umferðaröryggi og draga úr umferðarhávaða. Engin áform eru uppi um að tvöfalda veginn eða búa til 2+1 veg. Aftur á móti verður hvor akrein breikkuð um 20 sentímetra og vegöxlin breikkuð úr 30 sentímetrum í 1 metra til að auka öryggi hjólandi vegfarenda. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar.

Segir þar að talsverð umræða hafi farið fram um nýtt deiliskipulag í Mosfellsdal og að stundum hafi því verið haldið fram að til stæði að fara í stórfelldar vegaframkvæmdir, jafnvel með tvöföldun vegarins. „En sú er ekki reyndin,“ segir í tilkynningunni, heldur sé tilgangurinn að koma til móts við íbúa og freista þess að ná niður ökuhraða og auka öryggi.

Sjá má hvar hringtorgin eiga að vera á þessari teikningu …
Sjá má hvar hringtorgin eiga að vera á þessari teikningu sem fylgir tillögum Vegagerðarinnar. Mynd/Vegagerðin

Helstu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru, samkvæmt því deiliskipulagi sem nú er unnið að, eru gerð tveggja hringtorga á Þingvallavegi, annars vegar við gatnamót Helgadalsvegar og hins vegar við Æsustaðaveg og Mosfellsveg (eða aðeins vestar) og að í kjölfarið verði hægt að fækka tengingum við Þingvallaveg á þessum vegkafla. Auk hringtorganna er gert ráð fyrir hraðalækkandi „aðkomuhliðum“ á þeim stöðum þar sem hraðaviðvaranir hafa verið upp settar undanfarin ár.

Vegagerðin tekur þó fram að ekki hafi komið til fjárveiting í þetta verkefni. Ekki sé gert ráð fyrir framkvæmdunum á samgönguáætlun 2015-2018 sem Alþingi samþykkti í október í fyrra. Sú áætlun þurfi þó breytinga við eftir að fjárlög voru samþykkt, þannig að allt sé enn óljóst með fjármögnun þessa verks og því ekki vitað hvenær til framkvæmda gæti komið.

Skoða má tillögurnar betur á vef Vegagerðarinnar.

Nánari sýn á hvar hringtorgin og vegir fyrir aðra umferð …
Nánari sýn á hvar hringtorgin og vegir fyrir aðra umferð verða. Mynd/Vegagerðin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert