Hæstiréttur ómerkir Marple-dóminn

Hreiðar Már Sigurðsson í Hæstarétti.
Hreiðar Már Sigurðsson í Hæstarétti. mbl.is/Árni Sæberg

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, í máli ákæruvaldsins gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, og fleiri aðilum, hefur verið ómerktur af Hæstarétti.

Vísaði rétturinn til þess að sérfróðan meðdómsmann í málinu brysti hæfi, einkum vegna ummæla og athafna á samfélagsmiðlum þar sem hann lýsti eindreginni afstöðu sinni um málefni bankans og stjórnenda hans.

Taldi Hæstiréttur óhjákvæmilegt að virtum atvikum málsins að líta svo á að umrædd tilvik gæfu tilefni til að draga með réttu í efa að meðdómsmaðurinn hefði verið óhlutdrægur í garð ákærðu við meðferð málsins í héraði, að því er fram kemur í úrskurði réttarins.

Er málinu því vísað aftur til héraðsdóms á ný.

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Fóru báðir í refsihámark

Í mál­inu hafði Hreiðar Már Sig­urðsson, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings, verið dæmd­ur í sex mánaða fang­elsi fyr­ir umboðssvik og fjár­drátt. Magnús Guðmunds­son, fyrr­ver­andi banka­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg, hafði þá verið dæmd­ur í 18 mánaða fang­elsi fyr­ir hlut­deild í umboðssvik­um og fjár­drætti Hreiðars.

Með dóm­un­um fóru báðir í refsi­há­mark fyr­ir viðlíka brot vegna fyrri dóma í mál­um þeirra.

Skúli Þor­valds­son, fjár­fest­ir og stór viðskipta­vin­ur bank­ans, hafði þá verið dæmd­ur fyr­ir gá­leysi með því að hafa ekki kraf­ist skýr­inga á háum upp­hæðum sem milli­færðar voru á reikn­ing fé­lags­ins Marple sem var í hans eigu.

Guðný Arna Sveins­dótt­ir, fyrr­ver­andi fjár­mála­stjóri bank­ans, hafði hins vegar verið sýknuð af öll­um ákær­um í mál­inu.

Lektor við viðskiptafræðideild HÍ

Í októ­ber 2015 var áformað að kveða upp dóm í mál­inu, en Hörður Fel­ix Harðar­son, verj­andi Hreiðars Más, sagðist þá hafa fengið upp­lýs­ing­ar um meinta hlut­drægni meðdóm­ar­ans, Ásgeirs Brynj­ars Torfa­son­ar, og krafðist þess að hann væri úr­sk­urðaður van­hæf­ur.

Und­ir kröfu hans tóku verj­end­ur Magnús­ar og Guðnýj­ar, auk verj­anda fé­lags­ins Marple.

Ásgeir er lektor við viðskipta­fræðideild Há­skóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert