Stofnaði fjölmörgum í háska

Frá réttarhöldum yfir bræðrunum.
Frá réttarhöldum yfir bræðrunum. mbl.is/Golli

Rafal Marek Nabakowski stofnaði á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu fjölda óþekktra vegfarenda í stórfelldan háska, þegar hann hleypti af byssu fyrir utan Leifasjoppu í Breiðholti 6. ágúst síðastliðinn. Tugir manna voru þar saman komnir.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í dag yfir hinum svokölluðu byssubræðrum, Rafal og Marcin Wieslaw Nabakowski. Marcin fékk þar fangelsisdóm til tveggja ára og sjö mánaða, en Rafal var dæmd­ur í tveggja ára og átta mánaða fang­elsi.

Sak­sókn­ari fór fram á að Marc­in yrði dæmd­ur í fimm til sex ára fang­elsi, en þriggja til fjögurra ára fang­elsi í tilfelli Rafals.

Skvetti ammóníaki

Þá segir í dómnum að sannað þyki að Rafal hafi skotið með byssunni á bifreið af um tíu metra færi. Með þeirri háttsemi hafi hann stefnt lífi og heilsu farþega bifreiðarinnar, sem voru tveir, í stórfelldan háska á ófyrirleitinn hátt.

Að sama skapi þykir sannað að Marcin hafi skvett vatnsblönduðu ammóníaki framan í andlit annars manns, sem hlotið hafi nokkurn skaða af.

Frá aðgerðum lögreglu í Breiðholti í ágúst.
Frá aðgerðum lögreglu í Breiðholti í ágúst. mbl.is/Freyja

Báðir sviptir ökurétti

Í öðrum lið ákærunnar var bræðrunum gefið að sök að hafa hótað mönnum með töng við bensínstöð Select við Smáralind. Þeir hefðu með hótunum um ofbeldi neytt annan mann til að aka bifreið á tiltekinn sta.

Vegna mismunandi vitnisburða og annarra gagna þótti hins vegar ósannað að bræðurnir hefðu gerst sekir um þessa háttsemi.

Við refsiákvörðun dómsins er ævilöng ökuréttarsvipting Rafals áréttuð, auk þess sem Marcin er dæmdur til að sæta sömu sviptingar. Þá er gerð upptæk haglabyssa af gerðinni Winchester.

Eins og áður var greint frá var Marcin dæmdur í fangelsi til tveggja ára og sjö mánaða, en Rafal var dæmd­ur í tveggja ára og átta mánaða fang­elsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert