„Manns saknað í Keflavík“

Sexmenningarnir sem voru sakfelldir. Efri röð f.v.: Sævar Ciesi­elski, Erla …
Sexmenningarnir sem voru sakfelldir. Efri röð f.v.: Sævar Ciesi­elski, Erla Bolladóttir og Kristján Viðar Viðarsson. Neðri röð f.v.: Tryggvi Leifsson, Albert Kla­hn Skaftason og Guðjón Skarphéðinsson. mbl

Manns saknað í Keflavík. Þannig var fyrirsögn lítillar fréttar í eindálki, neðst á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu föstudaginn 22. nóvember 1974. Þar var greint frá því að Geirfinns Einarssonar, 32 ára fjölskyldumanns úr Keflavík væri saknað, en hann hefði ekki sést síðan 19. nóvember.

Í kjölfarið fylgdi ein umfangsmesta lögreglurannsókn sem gerð hefur verið hér á landi og inn í hana fléttaðist hvarf annars manns, Guðmundar Einarssonar. Sá hafði horfið sporlaust í janúar 1974.

Frétt um hvarf Geirfinns var birt á bls. 2 í …
Frétt um hvarf Geirfinns var birt á bls. 2 í Morgunblaðinu nokkrum dögum eftir að hann hvarf.

Í dag, um 43 árum eftir að mennirnir hurfu, verður niðurstaða endurupptökunefndar í Guðmundar -og Geirfinnsmálunum kynnt. Nefndin mun birta sex úrskurði er varða sex manneskjur sem dæmdar voru í fangelsi í tengslum við málin. Allar götur síðan mennirnir hurfu og til dagsins í dag hafa þessi tvö mál verið í sviðsljósinu og hvílt þungt á þjóðinni.

Nú er hins vegar komið að vendipunkti.

Skortur á líki

Á ýmsu hefur gengið í öll þessi ár. Sakborningar játuðu aðild en drógu játningarnar síðar til baka. Þeir voru í gæsluvarðhaldi og einangrun í svo langan tíma að annað eins þekktist ekki í heiminum á þessum tíma. Að afplánun lokinni fór einn þeirra, Sæv­ar Marinó Ciesi­elski, tvívegis fram á endurupptöku en var synjað. Þá fór Erla Bolladóttir, sem dæmd var í þriggja ára fangelsi fyrir meinta aðild sína að málunum, fram á endurupptöku árið 2000. Á það féllst Hæsturéttur ekki.

Vatnaskil urðu árið 2013 við útkomu skýrslu starfshóps sem Ögmundur Jónasson þáverandi innanríkisráðherra skipaði. Niðurstaðan var sú að „veigamiklar ástæður“ væru fyrir því að taka málin upp að nýju. Var það aðallega byggt á þeirri niðurstöðu sérfræðinga að framburðir (játningar) allra sex sakborninganna voru óáreiðanlegir.

Engin lík fundust, enginn staðfestur brotavettvangur var til staðar, engin áþreifanleg sönnunargögn lágu fyrir og framburður vitna og sakborninga var óáreiðanlegur. Allt þetta þýddi að „grundvöllur lögreglurannsóknarinnar byggðist á hæpnum forsendum,“ sagði m.a. í niðurstöðu sérfræðinganna.

Stefnumót í Hafnarbúðinni

En stígum nú 43 ár aftur í tímann.

Þriðjudagskvöldið 19. nóvember 1974 fór Geirfinnur frá heimili sínu í Keflavík til fundar við óþekktan mann í Hafnarbúðinni í Keflavík. Sá mætti ekki á stefnumótið, Geirfinnur kom aftur heim en fór skömmu síðar aftur út. Síðan hefur ekkert til hans spurst.

Bifreið Geirfinns fannst daginn eftir og þá var lögreglu gert viðvart. Valtýr Sigurðsson, síðar ríkissaksóknari, var þá fulltrúi sýslumanns í Keflavík. „Við töldum fulla ástæðu strax í byrjun til að taka hvarf Geirfinns alvarlega og vildum gera meira en að láta sporhundinn Nonna ganga nokkra hringi um bæinn,“ sagði Valtýr í samtali við Morgunblaðið fyrir fjórum árum. Ástæðu þessa sagði hann hafa verið fyrrnefnt stefnumót Geirfinns og ekki síður að hann hafi verið ráðsettur fjölskyldumaður sem ekkert misjafnt var vitað um.

Að hans sögn störfuðu 2-3 lögreglumenn hjá embættinu við rannsóknina og fljótlega var leitað liðsinnis hjá Reykjavíkurlögreglunni. Valtýr sagði mikla áherslu hafa verið lagða á að hafa upp á manni, sem komið hafði inn í Hafnarbúðina sama kvöld og Geirfinnur hvarf. Innan viku frá hvarfi Geirfinns hafði verið gerð leirmynd af andliti mannsins, svokallaður Leirfinnur, samkvæmt lýsingum starfsfólks Hafnarbúðarinnar og hún var birt í blöðum og sjónvarpi.

Ekkert kom fram við rannsóknina sem skýrt gat hvarf Geirfinns, henni var hætt vorið 1975 og þætti Keflavíkurlögreglunnar var þar með lokið.

Frétt um leit að Guðmundi Einarssyni var birt í Morgunblaðinu …
Frétt um leit að Guðmundi Einarssyni var birt í Morgunblaðinu 30. janúar 1974, nokkrum dögum eftir að síðast sást til hans.

Misskilningur vegna spíra

Í lok árs 1975 voru þrjú ungmenni sett í gæsluvarðhald vegna hvarfs Guðmundar Einarssonar. Þetta voru þau Sævar Marinó Ciesielski, Erla Bolladóttir og Kristján Viðar Viðarsson. Rannsóknarlögreglan í Reykjavík fór að rannsaka tengsl þessara tveggja mannshvarfa og rannsókn á hvarfi Geirfinns hófst á ný.

Um mitt ár 1976 var þýskur rannsóknarlögreglumaður á eftirlaunum, Karl Schütz, fenginn til að leiða rannsóknina, gæsluvarðhaldsfangarnir þrír bentu á Guðjón Skarphéðinsson sem vitorðsmann sinn og 2. febrúar 1977 hélt Schütz blaðamannafund þar sem tilkynnt var að hvarf Geirfinns teldist upplýst.

Í frétt Morgunblaðsins frá fundinum sem birtist daginn eftir er haft eftir Schütz að fjórmenningarnir hefðu játað að hafa lent í átökum við Geirfinn vegna misskilnings við spírakaup og orðið honum að bana. Líkið hefðu þau síðan flutt í Rauðhóla og kveikt í því. Leitað var á svæðinu, en lík Geirfinns hefur aldrei fundist. Sömu sögu er að segja um lík Guðmundar. Það hefur heldur aldrei fundist.

Eftir nokkra mánuði dró Kristján Viðar játningu sína til baka, Sævar fylgdi fljótlega í kjölfarið og Erla dró síðan játninguna til baka í janúar 1980, skömmu áður en dómar féllu í Hæstarétti. Guðjón dró síðan játningu sína til baka árið 1996.

Sævar reyndi að fá málið endurupptekið fyrir Hæstarétti á tíunda áratugnum, án árangurs. 

(Greinin heldur áfram fyrir neðan grafíkina)

mbl

Aðför að lögum 

En málið féll langt frá því í gleymskunnar dá meðal þjóðarinnar. Árið 1997 var sýnd heimildarmynd Sigursteins Mássonar, Aðför að lögum, þar sem farið var yfir atburðarásina sem leiddi til handtöku og síðar dóma yfir ungmennunum sex. Í henni var einnig varpað ljósi á alvarlega galla í málsmeðferðinni allri. Myndin vakti mikla athygli og umtal.

Bent var á svo þessa alvarlegu galla og fleiri í ítarlegri skýrslu starfshóps innanríkisráðherra um Guðmundar- og Geirfinnsmálin sem kom út árið 2013.

Í skýrslunni var birt mat á áreiðanleika framburða og játninga sexmenninganna sem voru vitni eða sakfelldir í þessum tveimur málum: Erlu Bolladóttur í báðum málunum, Alberts Klahn Skaftasonar í Guðmundarmálinu, Sævars Marinós Ciesielski í báðum málunum, Kristjáns Viðars Viðarssonar í báðum málunum, Tryggva Rúnars Leifssonar í Guðmundarmálinu og Guðjóns Skarphéðinssonar í Geirfinnsmálinu.

Matið var unnið af Gísla H. Guðjónssyni prófessor og Jóni Friðriki Sigurðssyni, prófessor og yfirsálfræðingi. Það byggir á margs konar gögnum, s.s. lögregluskýrslum, dómi Hæstaréttar, geðskýrslum og færslum um sakborningana í dagbókum Síðumúlafangelsisins.

Matið byggir einnig á gögnum og upplýsingum sem aflað var sérstaklega við rannsókn starfshópsins, s.s. viðtölum við þá sakborninga sem enn eru á lífi, viðtölum við nokkra rannsakendur og fangaverði og dagbókum tveggja sakborninga, Guðjóns og Tryggva Rúnars, sem þeir rituðu í gæsluvarðhaldinu um líðan sína, hugsanir og ýmsa atburði. 

Gísli H. Guðjónsson prófessor var meðal þeirra sem unnu að …
Gísli H. Guðjónsson prófessor var meðal þeirra sem unnu að skýrslu innanríkisráðherra um Guðmundar- og Geirfinnsmálin. mbl.is/Rósa Braga

„Rörsýn“ rannsakenda

Niðurstaða matsins var í stuttu máli þessi: „Eftir að hafa farið vandlega yfir gögn þau er liggja til grundvallar þessari skýrslu þá teljum við það hafið yfir allan skynsamlegan vafa, að framburðir (játningar) allra sex sakborninganna, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, voru óáreiðanlegir.“

Margir samverkandi þættir drógu að mati sérfræðinganna úr áreiðanleika framburðanna, m.a. lengd einangrunarvistar, tíðar og langar yfirheyrslur og tíð óformleg samskipti rannsakenda við sakborninga. Þá nefna þeir einnig fjölda vettvangsferða og tilrauna til að leita að líkum Guðmundar og Geirfinns, takmarkaða aðstoð lögmanna og ótta sakborninga við að gæsluvarðhaldið yrði framlengt ef rannsakendurnir væru ekki sáttir við framburð þeirra.

„Í tíunda lagi, þá virðist sem rannsakendur hafi haft „rörsýn“ við rannsókn málanna og haft fyrir fram skoðun á sekt sakborninganna og neikvæð viðhorf til sumra þeirra, einkum Sævars og Kristjáns Viðars,“ segir í skýrslunni. 

Áberandi ósamræmi

Skýrsluhöfundar sögðu það enn fremur mjög áberandi við framburði sakborninganna hversu mikið ósamræmi var á milli þeirra og hversu oft og mikið þeir breyttu framburði sínum. „Það er greinilegt að rannsakendurnir túlkuðu þetta misræmi sem mótþróa og vísvitandi tilraunir sakborninganna til að flækja málin. Það er eins og rannsakendurnir hafi ekki litið á aðra möguleika en sekt sakborninganna,“ segir í skýrslunni.

Sævar Marinó Ciesielski (t.h.) leiddur út úr húsakynnum sakadóms Reykjavíkur …
Sævar Marinó Ciesielski (t.h.) leiddur út úr húsakynnum sakadóms Reykjavíkur eftir dómsuppkvaðninguna. Sævar lést árið 2011. Morgunblaðið

„Mun líklegra er að ósamræmið hafi stafað af þekkingarleysi sakborninganna á málunum og að þeir hafi hvergi komið þar nálægt. Í þessum tveimur málum tókst aldrei að staðfesta brotavettvang, þ.e. sönnunargögn um að Guðmundur og Geirfinnur hefðu verið myrtir, og að ef þeir hefðu verið myrtir að sakborningarnir hefðu komið nálægt því. Þetta er mikilvægt þegar málin eru skoðuð því enginn af sakborningunum sex reyndist geta gefið áreiðanlegar upplýsingar um þessa tvo menn sem taldir voru myrtir og enginn þeirra gat gefið upplýsingar um hvar hin meintu lík væru niðurkomin. Líkin hafa aldrei fundist. Niðurstaðan í málunum tveimur leiddi ekki í ljós hvað gerðist því ekki hefur komið fram hvað raunverulega kom fyrir mennina tvo, Guðmund og Geirfinn.“

 Meginniðurstaða starfshóps innanríkisráðherra var því þessi: „Einkum í ljósi þeirrar afdráttarlausu niðurstöðu að framburðir dómfelldu í svokölluðum Guðmundar- og Geirfinnsmálum [...] hafi verið óáreiðanlegir telur hópurinn veigamiklar ástæður til að málið verði tekið upp á ný.“

Fimm af sakborningunum sex eða aðstandendur þeirra fóru fram á endurupptöku í kjölfar skýrslunnar. Settur ríkissaksóknari ákvað sjálfur að mælast til þess að mál þess sjötta yrði endurupptekið.

Niðurstaða endurupptökunefndar mun liggja fyrir kl. 14 í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert