Lagði áherslu á mannréttindi

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Golli

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á að mannréttindi væru hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands í ávarpi sínu fyrir Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í dag, en þetta er í fyrsta skipti sem utanríkisráðherra Íslands sækir árlega ráðherraviku mannréttindaráðsins frá því það var sett á fót í núverandi mynd fyrir um tíu árum.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Guðlaugur sagði enn fremur að ekki væri hægt að ætlast til að mannréttindi séu virt í fjarlægum löndum ef ekki er hugað fyrst að stöðu mannréttinda heima fyrir. Þess vegna fögnuðu íslensk stjórnvöld því að fá tækifæri til að undirgangast þá jafningjarýni sem fram fer á vegum Mannréttindaráðsins, en Ísland var tekið fyrir í annað skipti hjá ráðinu síðastliðið haust. 

Utanríkisráðherra gagnrýndi víðtæk mannréttindabrot í Norður-Kóreu og á Filippseyjum þar sem meintir glæpamenn hafa verið teknir af lífi án dóms og laga. Þá harmaði hann hlutskipti óbreyttra borgara í löndum eins og Jemen og Sýrlandi þar sem stríð hafa geisað.

Enn fremur gagnrýndi ráðherrann bágborna stöðu kvenna í Sádi-Arabíu, ofsóknir gegn minnihlutahópum í Myanmar og gegn hinsegin fólki (LGBTQ) víða um heim. Ráðherra lýsti enn fremur áhyggjum af stöðu mála í austurhluta Úkraínu og á Krímskaga. Þá hvatti hann tyrknesk stjórnvöld, þrátt fyrir erfiða stöðu, til að virða skuldbindingar sínar í mannréttindamálum, þ.m.t. að tryggja sjálfstæði dómskerfisins og virða frelsi fjölmiðla.

Þá þakkaði Guðlaugur Þór mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna sérstaklega fyrir starf hans í þágu mannréttinda í heiminum. „Þú hefur verið óhræddur við að varpa ljósi á mannréttindabrot hvar í heimi sem þau viðgangast og ljáð þeim rödd sem raddlausir eru,“ sagði utanríkisráðherra í ræðu sinni.

Fyrr í dag hitti utanríkisráðherra Filippo Grandi, framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar SÞ. Hann mun einnig skrifa undir samkomulag um framlög við forsvarsmenn OCHA, samræmingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum, í heimsókn sinni til Genf að þessu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert