Áfengisfrumvarpið til nefndar

mbl.is/Ómar

Fyrstu umræðu um áfengisfrumvarpið svonefnt lauk á Alþingi klukkan rúmlega hálfníu í kvöld og var það sent til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Verði frumvarpið afgreitt frá nefndinni fer það til annarrar umræðu en lagafrumvörp þarf að ræða samtals við þrjár umræður í þinginu.

Formaður allsherjar- og menntamálanefndar er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hún er einnig einn af flutningsmönnum frumvarpsins. Þrír aðrir flutningsmenn frumvarpsins eiga sæti í nefndinni en það eru Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar, Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar. 

Stjórnarflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkurinn, Björt framtíð og Viðreisn, hafa meirihluta í allsherjar- og menntamálanefnd eða fimm fulltrúa af níu. Fimmti fulltrúinn er Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hins vegar er frumvarpið stutt af þremur þingmönnum Pírata, þeim Jóni Þór Ólafssyni, Ástu Guðrúnu Helgadóttur og vafaþingmanninum Viktori Orra Valgarðssyni, en Píratar eiga tvo fulltrúa í nefndinni, þau Einar Aðalstein Brynjólfsson og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert