Sofnar frumvarpið í nefnd?

Fer brennivínið í búðirnar?
Fer brennivínið í búðirnar? mbl.is/Heiddi

Fjórir af níu nefndarmönnum í alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd eru flutningsmenn áfengisfrumvarpsins en fyrstu umræðu þess lauk á Alþingi í gærkvöldi. Var frumvarpið í kjölfarið sent í nefnd þar sem fimm nefndarmenn þurfa að styðja afgreiðslu þess til að það fari til annarrar umræðu á þingi en laga­frum­vörp þarf að ræða sam­tals við þrjár umræður í þing­inu.

Formaður alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd­ar er Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, en hún er einnig einn af flutn­ings­mönn­um frum­varps­ins. Þrír aðrir flutn­ings­menn frum­varps­ins eiga sæti í nefnd­inni en það eru Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartr­ar framtíðar, Vil­hjálm­ur Árna­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, og Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisn­ar.  

Auk þeirra eru Píratarnir Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson VG, Eygló Harðardóttir Framsókn og Valgerður Gunnarsdóttir Sjálfstæðisflokknum í nefndinni. 

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hvað gera Einar, Valgerður og Þórhildur?

Eygló Harðardóttir og Andrés Ingi Jónsson hafa áður líst því yfir að þau styðji ekki frumvarpið. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir ætlar að sjá hvernig meðferð málið fær í nefndinni áður en hún gerir upp hug sinn. Ekki náðist í Einar Brynjólfsson og Valgerði Gunnarsdóttur við vinnslu fréttarinnar en ljóst er að annað hvort þeirra þarf að styðja frumvarpið til að það fari til annarrar umræðu á þingi.

Í greinagerð vegna frumvarpsins kemur fram að allt áfengi, ekki eingöngu bjór og léttvín, verði selt í búðum og afgreiðslutími þess verði frá 9 að morgni til miðnættis. Áfengið verði selt í sérrými í verslunum.

Verði fyrirhugað frumvarp að lögum verða áfengisauglýsingar leyfðar. Teitur Björn Einarsson, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, sagði í samtali við mbl.is að það væri gert til að jafna samkeppnisstöðu milli innlendra og erlendra aðila. 

Lagt er til að að „leyfa áfengisauglýsingar með þeim takmörkunum sem koma fram í greininni um að hvers kyns áfengisauglýsingu skuli fylgja aðvörunarorð um skaðsemi áfengis og/eða hvatning til ábyrgrar neyslu sem og að aldrei megi beina áfengisauglýsingum að börnum og ungmennum.“

Biðröð í Vínbúð.
Biðröð í Vínbúð. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Léttvægir eiginleikar samanborið við eiturefni og skotvopn

Segir í greinagerðinni að það sé ekki hlutverk ríkisins að sinna smásölu heldur að setja reglur og hafa eftirlit ef nauðsyn þykir. Það eigi við um áfengi og aðrar neyslu- og nauðsynjavörur.

Í greinagerðinni kemur fram að margir telji að það muni reynast einkaaðilum erfitt að varna því að fólk undir 20 ára aldri fái afhent áfengi. Segir að einkaaðilum sé treyst til að framfylgja reglum um afhendingu eiturefna, skotvopna og skotfæra. „Þó svo að hægt sé að misnota áfengi virðast eiginleikar þess nokkuð léttvægir í samanburði við eiginleika tóbaks og hvað þá eiturefna, skotvopna og skotfæra.

Ekki lögmál að vörur hækki í verði

Því er haldið fram í greinagerðinni að það sé ekki almennt lögmál að vörur hækki í verði þegar einkaleyfi til sölu þeirra er aflétt. „E.t.v. má gera ráð fyrir að vinsæl vara verði ódýrari en vara sem lítil eftirspurn er eftir. En þá má spyrja hvort það sé á einhvern hátt óeðlilegt.

Andstæðingar frumvarpsins telja að aukið aðgengi muni verða til þess að neysla aukist. Birg­ir Jak­obs­son land­lækn­ir benti meðal annars á það og bað þingmenn í guðs bænum að samþykkja þetta frumvarp ekki. 

Flutningsmenn benda á að útsölustöðum ÁTVR hefur fjölgað gríðarlega og opnunartími rýmkaður svo að ljóst má vera að aukinn aðgangur áfengis á vegum ríkisverslunarinnar hefur aukist jafnt og þétt nú þegar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert