Endurhugsi fjármagn í menntakerfinu

Til vinstri, Cor J. W. Meijer, forstöðumaður Evrópumiðstöðvar um nám …
Til vinstri, Cor J. W. Meijer, forstöðumaður Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir (The European Agency for Special Needs and Inclusive Education). mbl.is/Golli

„Menntakerfið á Íslandi er vel fjármagnað miðað við önnur lönd í Evrópu. Hins vegar þarf að endurhugsa hvernig því er varið og láta það styðja betur við stefnu um menntun án aðgreiningar,“ segir doktor Cor J. W. Meijer, forstöðumaður Evr­ópumiðstöðvar um mennt­un án aðgrein­ing­ar, um niðurstöðu úttektar miðstöðvarinnar á framkvæmd á stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi.

Úttektin var gerð á öllum þremur skólastigunum; leik-, grunn- og framhaldsskóla. Hér er skýrslan í heild á vef mennta- og menningarmálaráðuneyti.  

Í skýrslunni kemur fram að eitt atriði er orðið fast í sessi „þ.e. hún hefði komist til framkvæmda á varanlegan hátt í stefnumótun og framkvæmd í öllum skólum, aldurshópum og sveitarfélögum.“ Segir í samantekt á skýrslunni. 31 atriði þarf að þróa betur og hafa lítið eða að hluta komið til framkvæmda innan skólanna. Hins vegar þyrfti að hleypa sjö atriðum strax af stað þar af þremur hið fyrsta.

Eitt af þremur atriðum sem brýnt er að fara strax í samkvæmt niðurstöðu úttektarinnar er að endurskoða allt fjárveitingarkerfið frá grunni. Það þarf að forgangsraða og auka sveigjanleika í fjárveitingareglunum. Hin tvö atriðin varða samræðu um samkomulag milli þeirra sem vinna að menntamálum um hvernig best verði staðið að menntun án aðgreiningar. Setja þurfi reglur um lágmarksþjónustu til stuðnings menntunar án aðgreiningar í öllum skólum.  

mbl.is/Eggert

Fleiri með greiningar en öðrum löndum Evrópu

„Fleiri börn hér á landi eru með greiningar en í öðrum löndum Evrópu. Hlutfallið hér á landi er um 16%. En hlutfallslega eru mun færri nemendur í sérskólum og sérúrræðum í skólum á Íslandi en víðast hvar í Evrópu,“ segir Meijer og bendir á að við þurfum að finna úrlausnir við hæfi fyrir þessa nemendur sem eru með greiningar. Hins vegar er ekki lausn að setja öll þessi 16% nemenda í sérskóla.  

Aðspurður hvernig íslenska skólakerfið standi til samanburðar við önnur lönd, svarar hann því til að þann samanburð mætti líkja við að bera saman epli og appelsínu eða jafnvel stigagjöf í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. „Það er ekki endilega góður mælikvarði. Við við viljum fyrst og fremst læra hvort af öðru frekar en að vera í þessum samanburði,“ segir hann. 

Styrkleiki að vilja rýna til gagns

„Styrkleikinn felst í því að kerfið vill rýna í skólastarfið sjálft og skoða áskoranir og galla við innleiðingaferlið. Það mun frekar leiða til þróunar í skólastarfi heldur en að bera sig saman við önnur lönd,“ segir doktor Amanda Watkins, aðstoðar framkvæmdastjóri Evr­ópumiðstöðvar um mennt­un án aðgrein­ing­ar.

Helstu áskoranir sem þyrfti að leysa núna í menntakerfinu er að skoða hvernig stuðningi er háttað við þessi 16% nemenda sem eru með sérþarfir og greiningar, að sögn Watkins. Hún velti því upp hvernig forgangsröðun fjármuna er í þágu þessara barna og hvort ekki megi gera betur.

Í þessu samhengi taka þau bæði fram að úttekt Evrópumiðstöðvarinnar fólst ekki í því að taka út innleiðinguna innan skólastofunnar sjálfrar. Í öllum löndum, þar með talið hér, eru dæmi um kennara sem vinna nákvæmlega eftir því hvernig heppilegast sé að innleiða stefnu um skóla án aðgreiningar. Einnig eru dæmi um andstæðuna.

Styðja þarf betur við starfsþróun kennara í starfi svo unnt …
Styðja þarf betur við starfsþróun kennara í starfi svo unnt sé að innleiða betur skóla án aðgreiningar. mbl.is/Egger

 

Kerfið þarf að styðja við starfsþróun

Í úttektinni er lögð áhersla á að styðja betur við starfsþróun starfsfólks á öllum skólastigum. Bæði benda þau á að það sé mikilvægt við slíka innleiðingu að kennarar fái tækifæri til að rýna til gagns með öðrum og vinni ekki hver í sínu horni. „Kerfið þarf að styðja þá til starfsþróunar,“ segir Watkins. 

Í úttektinni segir meðal annars: „Að áliti margra þeirra sem sinna menntamálum á landsvísu og í sveitarfélögum fellur hvorki grunnmenntun né starfsþróun nægilega vel að markaðri stefnu ríkis og sveitarstjórna, og starfsfólki skóla er því ekki gert kleift með fullnægjandi hætti að innleiða menntun án aðgreiningar sem stefnu sem byggist á rétti hvers og eins.“

Forgangsraða þarf fjármagni í skólakerfinu í þágu menntunar án aðgreiningar.
Forgangsraða þarf fjármagni í skólakerfinu í þágu menntunar án aðgreiningar. mbl.is/Þorvaldur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert