„Hvaða rugl er í gangi?“

„Vegurinn um Berufjarðarbotn tilheyrir þjóðvegi 1 og því getur óbreytt …
„Vegurinn um Berufjarðarbotn tilheyrir þjóðvegi 1 og því getur óbreytt ástand hans einfaldlega ekki viðgengist lengur.“ mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ungt Austurland, samtök ungra Austfirðinga á aldrinum 18-40 ára, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem boðaður niðurskurður á samgönguáætlun er harðlega gagnrýnd.

„Miðstjórn félagasamtakanna Ungt Austurland lýsir yfir gríðarlegum vonbrigðum með boðaðan niðurskurð á samgönguáætlun. Niðurskurðurinn setur út af borðinu framkvæmdir við lagningu bundins slitlags í Berufjarðarbotni og á Borgarfjarðarvegi,“ segir í ályktuninni sem samþykkt var af miðstjórn samtakanna.

Það segir jafnfram að ungir Austfirðingar neiti „að láta hafa sig að fíflum eina ferða enn“ og er þess krafist að staðið verði við gefin loforð en þingið samþykkti rétt fyrir kosningar samgönguáætlun þar sem úrbótum á vegum í Berufjarðarbotni og Borgarfjarðarvegi var lofað.

Í tilkynningunni spyrja fulltrúar samtakanna: „Hvaða rugl er í gangi?“ en samtökin vilja berjast fyrir bættum búsetuskilyrðum á Austurlandi og segja að með ákvörðunum sem þessum vinni stjórnvöld „beinlínis gegn því markmiði.“

„Vegurinn um Berufjarðarbotn tilheyrir þjóðvegi 1 og því getur óbreytt ástand hans einfaldlega ekki viðgengist lengur. Að ein ríkasta þjóð heims skuli ekki geta malbikað þjóðveg hringinn í kringum landið er til háborinnar skammar og íbúum og gestum þessa lands gjörsamlega óboðlegt. Vegurinn í Berufjarðarbotni er og hefur verið um árabil handónýtur og þar af leiðandi stórhættulegur og sannkölluð dauðagildra.

Það er auðvelt að lofa öllu fögru í kosningabaráttu en nú er er tími efnda. Miðstjórn Ungs Austurlands skorar á alla þingmenn Norðausturkjördæmis að standa með Austfirðingum og tryggja að farið verði í framkvæmdirnar sem fyrst. Ef þingmenn kjördæmisins geta ekki staðið sig í stykkinu og ætla að sitja hjá á meðan svæðið er vanrækt þá biðjum við þá vinsamlegast að stíga til hliðar og hleypa fólki að sem er tilbúið að gera raunverulegt gagn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert