„Nú er mál að linni“

Eigendur Brúneggja hafa farið fram á að fyrirtækið verði tekið …
Eigendur Brúneggja hafa farið fram á að fyrirtækið verði tekið til gjaldþrotameðferðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eigendur Brúneggja hafa óskað eftir því að félagið verði tekið til gjaldþrotameðferðar. „Enginn atvinnurekstur þolir það að missa nær allar tekjur sínar svo að segja á einni nóttu en sitja eftir með tilheyrandi kostnað og útgjöld,“ segir í tilkynningu frá fyritækinu.

Öllu starfsfólki hefur verið sagt upp og þá var ákveðið í janúar sl. að leggja niður starfsemi á Teigi og í Silfurhöll í Mosfellsbæ.

„Eigendur Brúneggja harma þá vankanta í starfseminni sem fundið hefur verið að á liðnum misserum en harma ekki síður að þessi verði endalok fyrirtækisins. Nú er mál að linni.“

Tilkynning Brúneggja í heild:

„Eigendur Brúneggja ehf. óskuðu eftir því í dag að félagið yrði tekið til gjaldþrota-meðferðar.

Nær öll eggjasala stöðvaðist strax eftir að Kastljós RÚV fjallaði um starfsemina 28. nóvember sl. Tilraunir til að rétta hlut fyrirtækisins í óvæginni umfjöllun dagana á eftir báru ekki árangur og við blasti fljótlega að lífróður eigendanna myndi ekki duga til að halda fyrirtækinu gangandi nema í takmarkaðan tíma.

Enginn atvinnurekstur þolir það að missa nær allar tekjur sínar svo að segja á einni nóttu en sitja eftir með tilheyrandi kostnað og útgjöld.

Öllu starfsfólki fyrirtækisins var sagt upp og þrátt fyrir að starfsstöðvar þess væru allar með fullt starfsleyfi frá Matvælastofnun var ákveðið að leggja niður starfsemi á Teigi og í Silfurhöll í Mosfellsbæ í janúar sl. Aðstæður í gömlu fuglahúsunum þar gerðu mönnum erfitt fyrir með að uppfylla viðmið um loftgæði sem kveðið er á um í reglugerð um dýravelferð frá 2015.

Eigendur Brúneggja harma þá vankanta í starfseminni sem fundið hefur verið að á liðnum misserum en harma ekki síður að þessi verði endalok fyrirtækisins.

Nú er mál að linni.

Eigendur Brúneggja ehf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert