Ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur

Dansinn dunar af krafti. Helga Hlín Stefánsdóttir, Elísabet Thea Kristjánsdóttir …
Dansinn dunar af krafti. Helga Hlín Stefánsdóttir, Elísabet Thea Kristjánsdóttir sem Aníta og Sóley Ólafsdóttir.

Í söngleiknum West Side Story takast tvær klíkur á, Þotur og Hákarlar. Þar segir frá stríðandi fylkingum unglinga í Ameríku þess tíma sem verkið er samið á. Annars vegar eru innflytjendur og hins vegar þeir sem kalla sig Ameríkana, þó að þeir eigi reyndar rætur víðs vegar um heiminn. Krakkarnir í Herranótt, leikfélagi Menntaskólans í Reykjavík, frumsýna West Side Story í Gamla bíó í kvöld.

Það hefur verið líf og fjör í tuskunum undanfarið hjá okkur og mikill spenningur og eftirvænting, enda stórviðburður að frumsýna söngleik. Við höfum æft öll kvöld og helgar í tvo mánuði,“ segir Ágústa Skúladóttir, sem leikstýrir krökkunum í Herranótt, leikfélagi Menntaskólans í Reykjavík, sem frumsýna í kvöld söngleikinn West Side Story í Gamla bíói.
Mikið um að vera. Elísabet Thea Kristjánsdóttir sem Aníta og …
Mikið um að vera. Elísabet Thea Kristjánsdóttir sem Aníta og Bjartur Örn Bachman sem Bernardó. Og hljómsveitin að baki þeim leikur lifandi tónlist.


Flott hugdirfska

„Herranótt vildi setja upp söngleik og við skoðuðum ýmsa möguleika, en þetta eru svo miklir ofurhugar að þau ákváðu að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur og völdu West Side Story. Mér fannst þetta svo flott hugdirfska að ég sagði bara: endilega gerum það,“ segir Ágústa og hlær.

„Þetta er eiginlega frægasti söngleikur allra tíma og ekkert smá átak að koma þessu saman. Þau sem leika þurfa ekki aðeins að geta sungið öll þessi lög, heldur er tíu manna hljómsveit með í sýningunni, mönnuð nemendum MR. Gunni Ben hefur útsett tónlistina upp á nýtt og er búinn að stjórna söngæfingum sleitulaust, enda söngurinn margradda á köflum. Þetta eru fræg lög og ballöður sem allir þekkja,“ bætir Ágústa Skúladóttir við.

Grjóthörð. Marta María Halldórsdóttir í hlutverki sínu sem Schrank foringi.
Grjóthörð. Marta María Halldórsdóttir í hlutverki sínu sem Schrank foringi.


Þau eru ofurhugar að takast á við þessa hörkuvinnu

Þegar Ágústa er spurð hvort það sé ekkert mál að manna svona sýningu með krökkum úr einum menntaskóla, þar sem þarf að syngja, leika og dansa, segir hún það einmitt vera svo stórfenglegt fyrir hana að vera með öll þessi hæfileikabúnt í höndunum sem Herranæturkrakkarnir eru.

„Ég á ekki til orð yfir það hversu flinkir þessir ungu krakkar eru. Þetta leikrit er mikið drama og leikið er á allan tilfinningaskalann, þarna er vonin um að ástin sigri og að stríðandi fylkingar nái saman, en það fer því miður ekki þannig,“ segir Ágústa.

Hún bætir við að ótal margt annað þurfi að gera í uppsetningu söngleiks en að leika og syngja.

Söngleikurinn var innblásinn af leikriti Shakespeares Rómeó og Júlíu.
Söngleikurinn var innblásinn af leikriti Shakespeares Rómeó og Júlíu.


„Brynhildur Karlsdóttir sér um kóreógrafíuna í þessum risastóru dansatriðum, Kristína Berman er með heilt teymi með sér í hönnun og gerð búninga, Ólafur Ágúst Stefánsson hannar lýsingu og svo þarf að sjá um sviðsmynd, förðun, markaðsmál og fleira, og allt gera þau þetta sjálf krakkarnir. Þetta eru ofurhugar að takast á við þessa hörkuvinnu sem felst í því að setja upp svona verk.“

Ágústa ákvað að brjóta upp kynjahlutföllin í verkinu, enda hallaði á konur í hlutverkunum.

„Mér fannst alveg kjörið að hrista upp í kynjahlutverkum gamla tímans og ég ákvað því að láta fullt af stelpum vera í þessum klíkum sem verkið hverfist um. Til dæmis látum við Riff, foringja annarrar klíkunnar, vera kvenkyns, en það er eitt aðalhlutverkið. Það er hún Una Torfadóttir sem leikur Riff með miklum stæl, en hún flutti magnaða ræðu á síðasta kvennafrídegi, og hún samdi textann við vinningsatriði Hagaskóla í Skrekk í fyrra, en það heitir Elsku stelpur.“

Sungið af innlifun Hér eru þær í hlutverkum sínum að …
Sungið af innlifun Hér eru þær í hlutverkum sínum að syngja þær Áslaug Lárusdóttir sem María og Elísabet Thea Kristjánsdóttir sem Aníta.


Ágústa segir að í West Side Story takist tvær klíkur á, Þotur og Hákarlar.

„Þetta eru stríðandi fylkingar unglinga í Ameríku þess tíma sem verkið er samið á. Annars vegar innflytjendur og hins vegar þeir sem kalla sig Ameríkana, þó að þeir eigi reyndar rætur víðs vegar um heiminn.

West Side Story var heilan áratug í þróun og vinnslu áður en það var frumsýnt í New York 1957. Verkið var fyrst sett á svið hér á Íslandi í Þjóðleikhúsinu árið 1995, og þá leikstýrði Karl Ágúst Úlfsson, en hann er einnig þýðandi verksins.“

Drama. Sigurbergur Hákonarson sem Tóný og Eiríkur Egill Gíslason sem …
Drama. Sigurbergur Hákonarson sem Tóný og Eiríkur Egill Gíslason sem Doxi.


Söngleikurinn innblásinn af Rómeó og Júlíu Shakespeares

„Í vesturbæ New York-borgar takast götuklíkur á um völdin. Hver á göturnar, „sannir“ Ameríkanar eða innflytjendur frá Púertó Ríkó? Ólgandi tilfinningar leita útrásar í slagsmálum og spennu, villtum dansi, heiftarlegu hatri – og ást. Mitt í allri hringiðunni fella ung stúlka og ungur maður af ólíkum uppruna hugi saman, þvert gegn vilja sinna nánustu. Óspillt æskuást þeirra má sín þó lítils gegn valdastríði og blóðhefndum.“ Þannig hljómaði kynning á verkinu árið 1995 þegar það var sett upp í Þjóðleikhúsinu.

Söngleikurinn West Side Story er byggður á hugmynd bandaríska danshöfundarins Jerome Robbins, tónlistin er eftir Leonard Bernstein, söngtexta gerði Stephen Sondheim en leiktextann Arthur Laurents. Söngleikurinn var fyrst frumsýndur í New York 1957.

Söngleikurinn var innblásinn af leikriti Shakespeares Rómeó og Júlíu.
Sýningardagar og miðar fást á midi.is
Ágústa Skúladóttir leikstýrir krökkunum í Herranótt.
Ágústa Skúladóttir leikstýrir krökkunum í Herranótt.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert