„Engin viðbrögð þau einu réttu“

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Tom Stranger sögðu frá nauðguninni á …
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Tom Stranger sögðu frá nauðguninni á TED-fyrirlestri. Skjáskot/TED

Í nýjum pistli á vefsíðu The Guardian segir Þórdís Elva Þorvaldsdóttir frá þeim viðbrögðum sem hún hefur fengið eftir að myndband með TED-fyrirlestri hennar og Tom Stranger fór á flug í síðasta mánuði. Tom nauðgaði Þórdísi þegar hún var 16 ára gömul en í fyrirlestrinum sögðu þau frá nauðguninni, áhrifum hennar á líf þeirra beggja og hvernig þau náðu sáttum.

Bókin Handan fyrirgefningar eftir Þórdísi Elvu og Tom segir sömu sögu en hún er væntanleg 16. mars. Í pistli þeirra á The Guardian má einnig lesa brot úr bókinni en í því segir Þórdís Elva frá ferðalaginu til Suður-Afríku, þar sem hún hitti Tom í fyrsta skipti í um 20 ár, fram að stundinni þegar þau hittust á hótelinu í Cape Town.

Flestir jákvæðir

Í pistlinum segir Þórdís Elva að viðbrögð fólks við frásögn þeirra hafi að mestu leyti verið jákvæð og uppbyggjandi en að fáar en háværar raddir hafi þó gagnrýnt hana fyrir að að vera „ekki nógu reið“ og fyrir að hafa fyrirgefið Tom. Þá hefur Þórdís Elva verið spurð af hverju hún hafi ekki kært Tom eftir að hann nauðgaði henni.

„Einfalda svarið við þeirri spurningu er að ég var 16 ára stelpa með einfaldar skoðanir á nauðgun. Nauðganir voru framdar af vopnuðum brjálæðingum, svona tilkomumiklum skrímslum eins og maður sá í sjónvarpinu og las um í fjölmiðlum. Veruleikinn var sá að Tom var ekki skrímsli en frekar manneskja sem tók skelfilega ákvörðun og þetta gerði það erfiðara fyrir mig að sjá glæpinn fyrir það sem hann var. […] Þegar ég áttaði mig á því að það sem hafði komið fyrir mig var nauðgun var Tom fluttur hinumegin á hnöttinn, langt frá lögsögu íslensku lögreglunnar.

Þórdís Elva vissi að samstarfið við Tom yrði umdeilt en …
Þórdís Elva vissi að samstarfið við Tom yrði umdeilt en viðbrögðin við fyrirlestrinum hafa að mestu leyti verið jákvæð.

Á þessum tíma var 70% af nauðgunarmálum á Íslandi vísað frá, jafnvel þegar þolandinn hafði gögn sem studdu málið og hægt var að yfirheyra gerandann en hvorugt var raunin í mínu máli. Því hefði kæra ekki verið árangursríkt ferli og eini kosturinn sem mér fannst ég hafa í stöðunni var að byrgja inni reiðina og sársaukann.“

Þórdís Elva segir þá að fyrir flesta þolendur sé „lífið eftir ofbeldi tætingsleg þrekraun“ og að ekki sé hægt að segja að það sé til ein rétt leið til að bregðast við því þegar „líf þitt er rifið í tætlur af ofbeldi“.

Vissi að samstarfið yrði umdeilt

„Raunveruleikinn er sá að engin viðbrögð eru þau „einu réttu“. Ég vissi að samstarf mitt við Tom yrði umdeilt og viðbrögð internettrölla komu mér ekki á óvart. Ég hef samt áhyggjur af því hversu fljótir sumir voru til að dæma þá „röngu“ leið sem ég fór til að vinna úr lífsreynslunni minni. Ég var ekki „nógu reið,“ ég hefði átt að kæra, ég var að sýna „hættulegt fordæmi,“ „ég ætti að skammast mín“. Ég hefði ekki átt að fyrirgefa, jafnvel þó að ég hefði gert það ljóst að fyrirgefningin var ekki fyrir gerandann heldur fyrir sjálfa mig og þó svo að án hennar væri ég ekki á lífi.“

Þórdís Elva segir þessi viðbrögð valda sér áhyggjum. Hún hafi áhyggjur af því að aðrir þolendur eigi á hættu að tileinka sér þá hugsun að það séu til einhver ein rétt viðbrögð við kynferðisofbeldi.

„Við ykkur vil ég segja að þið gerðuð ekkert rangt. Leiðin sem þið fóruð til að halda áfram lífi ykkar var kannski ekki afdráttalaus. Hún var jafnvel tætingsleg og óskiljanleg fyrir þá sem upplifðu ekki það sama og þú en þetta var þín leið til að lifa áfallið af. Það hefur enginn rétt á að segja þér hvernig þú átt að takast á við þennan sársauka.“

Pistil Þórdísar Elvu og brot úr bókinni Handan fyrirgefningar má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert